David M. A. Wallerstein er einn æðsti stjórnandi Tencent sem er verðmætasta fyrirtæki Kína og með verðmætustu fyrirtækjum heims, en hann er meðal þeirra sem fjallað er um í úttekt Frjálsrar verslunar á umsvifamestu þrjátíu af umsvifamestu erlendu auðmönnunum hér á landi.

Starfsheiti Wallersteins er könnunarstjóri (e. chief exploration officer) en hann hefur einnig verið kynntur sem forstjóri Tencent í Bandaríkjunum. Starfslýsing Wallersteins er vægast sagt víðtæk. Hann leiðir nýsköpun Tencent, ber ábyrgð á verkefnum fyrirtækisins utan Kína og sér um innleiðingu Tencent inn á ný viðskiptasvæði. Hann hefur starfað hjá fyrirtækinu í um tuttugu ár.

Fyrir um þremur árum keypti Wallerstein hús við Bergstaðastræti í Reykjavík fyrir tæplega 200 milljónir króna. Hann hefur enn fremur stofnað tvö fyrirtæki hérlendis. Annað þeirra heitir Oos Pictures og hitt heitir Oos. Skráður tilgangur þess fyrrnefnda, að því er fram kom í frétt Ríkisútvarpsins, er framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni.

Tilgangur þess síðarnefnda er kaup, sala, rekstur fasteigna, líftæknirannsóknir, fjárfestingar sem og nýsköpunarráðgjöf. Í frétt Morgunblaðsins árið 2017 kom fram að Wallerstein hefði fjárfest í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Plain Vanilla árið 2013. Enn fremur fjárfesti hann í Teatime, sem stýrt er af fyrrverandi stjórnendum Plain Vanilla og gaf út leikinn Trivia Royal fyrr á þessu ári.

Wallerstein fundaði með Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir ári. Á fundinum fór Wallerstein yfir það hvernig langtímafjárfestar geta fundið tækifæri í tæknibreytingum og hvaða möguleika Ísland á á sviði nýrrar tækni samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn Frjálsrar verslunar. Tencent er talið stærsta tölvuleikjafyrirtæki heims. Það er eitt stærsta samfélagsmiðlafyrirtæki heims sem og einn stærsti nýsköpunarfjárfestir í heimi.

Tencent á tölvuleikjaframleiðandann Riot Games sem meðal annars hefur framleitt League of Legends. Einnig á Tencent WeChat sem yfir milljarður manns notar reglulega. Markaðsverðmæti Tencent er um 732 milljarðar dollara en til samanburðar er markaðsvirði Facebook um 787 milljarðar dollara.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi hér .