Íslenska tæknifyrirtækið Treble Technologies vann nýverið tvenn nýsköpunarverðlaun á erlendri grundu. Bæði verðlaunin voru veitt fyrir nýsköpun í byggingageiranum en Treble framleiðir hugbúnað á sviði hljóðhermunar sem nota má m.a. við hljóðvistarhönnun bygginga, hljóðhönnun tölvuleikja, hljóðhönnun bíla og hönnun hverskyns hljóðtæknibúnaðar.

Verðlaunin Smart Building / Smart Construction Innovation World Cup 2021 voru veitt á BIM World ráðstefnunni í München, sem er ein stærsta alþjóðlega ráðstefnan á sviði tækni í byggingageiranum. Verðlaunin voru veitt fyrir fyrstu vöru Treble, sem er hugbúnaður sem gerir hönnuðum í byggingageiranum kleift að hanna hljóðvist bygginga og mannvirkja, en Treble var eitt af 12 sprotafyrirtækjum sem voru tilnefnd til verðlaunanna. Lausnir sprotafyrirtækjanna voru dæmdar eftir nýsköpunargildi lausnar, viðskiptatækifæris, sjálfbærni og markaðsnálgun. Í tilkynningu segir að verðlaunin sem unnið var til á BIM World ráðstefnunni séu með þeim stærri sem veitt eru fyrir nýsköpun í byggingageiranum.

Hljóðhermunartæki Treble hlaut svo verðlaunin Best new tech á AEC Hackathon viðburðinum í Kaupmannahöfn. Um er að ræða stóran viðburð í byggingageiranum sem haldinn er nokkrum sinnum á hverju ári víðs vegar um heim. Hermunartæknin er hornsteinn hugbúnaðarlausna fyrirtækisins og býður upp á afar nákvæma og hraðvirka hermun.

Finnur Pind, einn stofnanda og framkvæmdarstjóri Treble:

„Verðlaun sem þessi veita okkur mikið sjálfstraust til að halda áfram því sem við erum að gera og er ákveðinn vísir að því að við séum að gera góða hluti. Við finnum fyrir miklum áhuga á því sem við erum að gera frá markaðnum og fjárfestum og erum í hröðum vexti þessa dagana."

Því má bæta við að Treble hlaut nú á dögum styrkinn Vöxt frá Tækniþróunarsjóði Rannís upp á 50 milljónir sem veittur var við hátíðlega athöfn í Grósku.