Undir helmingur Bandaríkjamanna styður nú Donald Trump forseta, en á sama tíma hefur stuðningur við marga fylkisstjóra þar í landi, sér í lagi Demókrata, aukist umtalsvert.

Í nýlegri könnun Reuters-Ipsos sögðust 46% aðspurðra styðja forsetann, svipað hlutfall og áður en kórónufaraldurinn brast á. Í upphafi krísunnar vestanhafs jókst stuðningur forsetans nokkuð, en hefur nú tekið að dala á ný.

Á sama tíma segjast 87% aðspurðra íbúa New York-fylkis styðja aðgerðir fylkisstjórans og demókratans Andrew Cuomo í tengslum við faraldurinn. Trump hefur verið nokkuð gagnrýninn á Cuomo, og lét meðal annars nýlega hafa eftir sér að hann „ætti að gera meira“ fyrir íbúa.

Hart tekist á um öndunarvélar
Eitt mesta bitbeinið hefur verið skortur á öndunarvélum og hvernig þeim takmarkaða fjölda í boði er skuli ráðstafað. Segja fylkisstjórarnir margir hvíta húsið hafa brugðist gjörsamlega í þeim efnum. Fylkin keppist sín á milli um að kaupa vélar, sem eðli máls samkvæmt keyri verðið upp úr öllu valdi, og í einhverjum tilfellum taki alríkið sjálft þátt í uppboðunum.

Í frétt Financial Times um málið er haft eftir framkvæmdastjóra Samtaka borgarstjóra í Bandaríkjunum, Tom Cochran, að staðan sé einfaldlega galin. „Geturðu ímyndað þér ef allir hefðu boðið hvorn annan í kaf fyrir öllu sem þeir þurftu í seinni heimsstyrjöldinni? Það verður að vera einn miðlægur aðili sem stýrir aðgerðum sem þessum.“

Eins og að öll fylkin keppist um að bjóða á eBay
Cuomo líkti stöðunni við verðstríð á eBay þar sem öll fylki Bandaríkjanna kepptust við að bjóða sem hæst. Ofan á það hafi Neyðarstofnun Bandaríkjanna (e. FEMA) einnig boðið í vélar í beinni samkeppni við fylkin.

Til að bæta gráu ofan á svart hafa gagnrýnendur bent á að svo virðist sem forsetinn aðstoði aðeins fylkisstjóra sem honum líki vel við, að minnsta kosti þar til nýlega, en forsetinn sagði um fylkisstjórana að „ef þeir kæmu ekki rétt fram við hann, fengju þeir einfaldlega ekki að tala við hann“.