„Það er heiður að fá að vera með þér,“ sagði Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, sem svaraði: „Ég er hæstánægður að fá að hitta þig í persónu.“ Þessir tveir þjóðhöfðingjar funduðu í fyrsta skiptið, svo vitað er til, á fundi G20 ríkjanna í Hamborg. BBC greinir frá samskiptum þjóðarleiðtoganna tveggja.

Rætt var um hin ýmsu málefni á fundi þjóðarleiðtoganna tveggja, meðal annars ásakanir þess efnis að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningnarnar, þar sem Donald Trump stóð uppi sem sigurvegari. Á G20 ráðstefnunni mun fara mest fyrir umræðu um loftslagsmál og milliríkjaverslun.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá hafa brotist út átök meðal mótmælenda í Hamborg í Þýskalandi. Lögreglan hefur meðal annars þurft að beita háþrýstislöngum og piparúða til að takast á við mótmælendur. Á ráðstefnunni eru samankomnir þjóðarleiðtogar 20 valdamestu ríkja heims, og því er viðbúnaðurinn mikill.

„Gengur vel“

Donald Trump sagði við blaðamenn á fundinum að þeir Pútín hefðu rætt fjölmargt á fundi sínum og sagði hann að það hafi „gengið vel.“ Hann bætti við að það væru jákvæðir hlutir í bígerð, fyrir Rússa, Bandaríkjamenn og alla hluteigandi. Pútín sagði að það væri gott að fá loks að hitta Trump í eigin persónu.

Bæði Trump og Pútín virtu spurningar blaðamanna að vettugi. Að loknum fundi sagði Pútín að hann hafi átt ítarlegar samræður við Trump, að þeir hafi rætt mál á borð við ástandið í Úkraínu, Sýrland og önnur vandamál.