Forystumenn Repúblikanaflokksins eru ævareiðir vegna ákvörðunar Donald Trump Bandaríkjaforseta að samþykkja tillögu Demókrata um hækkun á skuldþaki bandaríska ríkisins.

Hækkunin á að tryggja að hægt sé að halda rekstri ríkisins áfram fram til 15. desember að því er kemur fram í frétt Financial Times . Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, á að hafa lýst ákvörðun Trump sem „fáránlegri.

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hafði hvatt öldungadeild Bandaríkjaþings til að finna lausn sem slægi vandanum á frest fram yfir þingkosningar í Bandaríkjunum í nóvember á næsta ári.

Með því að slá vandanum á frest í einungis þrjá mánuði er talið að demókratar geti beitt sér frekar á komandi þingvetri.