Donald Trump, sem nýlega stóð uppi sem sigurvegari í forvalskosningum Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, telur að Bretlandi muni farnast betur utan Evrópusambandsins.

Í viðtali hjá Fox sjónvarpstöðinni sagði hann flóttamannavandann hafa haft skelfileg áhrif á Evrópu og kenndi sambandinu að mestu um hvernig komið væri fyrir aðildarlöndum þess. Trump sagði að hann væri hann ekki að veita Bretum ráðleggingar en hann teldi þó sjálfur að þjóðin ætti að segja skilið við Evrópusambandið í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í síðasta mánuði birti Barack Obama Bandaríkjaforseti  tilfinningaþrungna grein í breska blaðinu Telegraph þar sem hann hvatti Breta til þess að ganga ekki úr sambandinu. Þar sagði hann að Bandaríkin, Bretland og ESB hefðu í sameiningu breytt áratugum af stríðsrekstri í Evrópu í áratugi af friði og unnið saman sem ein heild til að gera heiminn að betri stað. Sagði hann jafnframt að ef Bretar gangi útúr Evrópusambandinu muni þjóðin í framtíðinni eiga erfiðara um vik í baráttunni gegn hryðjuverkum, flóttamannavandanum og mögulegum efnahagslegum áföllum í heiminum.