Stjórn Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, ætlar að óska eftir 800 til 850 milljarða dollara fjárinnspýtingu við Bandaríkjaþing. Er innspýtingunni ætlað að lágmarka skaða kórónuveirufaraldursins á bandaríska hagkerfið. FT greinir frá þessu.

Skólum, veitingahúsum, börum og verksmiðjum hefur verið lokað í landinu til að reyna ná tökum á útbreiðslu veirunnar, auk þess sem flugfélög hafa liðið fyrir ferðabann sem lagt var á skömmu fyrir síðustu helgi. Hefur þetta augljóslega haft slæmar afleiðingar fyrir bandarískt efnahagslíf og eru stjórnvöld að leita leiða til að styðja við fyrirtækin og fólkið í landinu.

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefur þegar samþykkt tvo smærri innspýtingarpakka til að hjálpa hagkerfi landsins að komast í gegnum ólgusjó kórónuveirunnar, en reiknað er með að ofangreind innspýting verði umdeildari.

Trump stjórnin hefur lagt til að komið verði til móts við fólk með lækkun tekjuskattar, en lífeyrissjóðir og heilbrigðiskerfi eru m.a. fjármögnuð í gegnum slíka skatta. Demókratar hafa lýst því yfir að þeir vilji heldur auka stuðning við láglaunafjölskyldur, í formi atvinnuleysisaðstoðar og matargjafar.