Hæstiréttur féllst nýverið á beiðni um áfrýjunarleyfi í máli sem varðar líkamstjón ökumanns mótórhjóls sem ók aftan á vörubíl í Mosfellsdal árið 2013. Vátryggingafélag mannsins hafði viðurkennt bótaskyldu í málinu en lækkað bæturnar um helming þar sem slysið mátti rekja til stórfellds gáleysis hans.

Héraðsdómur og Landsréttur dæmdu hins vegar að bæta bæri tjónið að tveimur þriðju. Í beiðni um áfrýjunarleyfi var bent á að Landsréttur hefði ekki fjallað um málsástæðu þess efnis að félagið hefði með tómlæti fyrirgert rétti til að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð sinni.

Telur maðurinn svo vera, en átján mánuðir liðu frá því að tjónstilkynning barst og þar til félagið tefldi því fram. Félagið byggði í héraði á því að þann drátt mætti rekja til þess að niðurstaða fengist í rannsókn lögreglu á slysinu og hvort maðurinn yrði sóttur til saka vegna aksturs síns. Því máli lauk með því að manninum var gerð sekt. Ekki var vikið að umræddri málsástæðu í dómi Landsréttar.

Í ákvörðun Hæstaréttar sagði að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgefandi áhrif á gildissvið og túlkun umrætt ákvæði laga um vátryggingasamninga, hvað gagnaöflun og tilkynningarskyldu vátryggingafélaga varðar, og var því fallist á beiðnina.