Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri gagna hjá Qlik og sprotafjárfestir, segir sprotafjárfestingar síðasta árs of fáar til að lesa mikið í tölfræðina. „Þetta eru fjárfestingar sem verða snemma í ferlinu þannig að mörg ný fyrirtæki hafa verið að fá peninga í þeim á liðnu ári. En það eru líka yfirleitt minni fjárfestingar til að byrja með,“ segir Hjálmar. Hann bendir á að á Íslandi eru fjórir stórir sjóðir sem fjárfesta í nýsköpun.

„Á nýliðnu ári voru tveir þeirra – Frumtak og Eyrir Sprotar – ekki að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum heldur frekar að fylgja eftir einhverju sem þeir höfðu fjárfest í. Crowberry Capital, nýjasti sjóðurinn, var ekki almennilega kominn af stað þannig að við vorum kannski í smá millibilsástandi.“ Fjórði sjóðurinn, Brunnur, lagði tveimur félögum til milljón dollara hvoru í fjárfestingu 2017. Hjálmar segir nýsköpun á Íslandi standa frammi fyrir ákveðnum áskorunum þegar sprotafyrirtæki þurfa að vaxa og taka skrefið út í heim. „Á Íslandi er hægt að koma saman mjög öflugum litlum hópum sem eru mjög góðir í fyrstu skrefunum, sérstaklega í vöruþróun og maður hefur séð lítil, öflug teymi sem hafa búið til heimsklassa vörur á ótrúlega stuttum tíma fyrir litla peninga. En svo vantar oft bæði fjármagn og þekkingu til að koma vörunum á markað alþjóðlega.“

Í þessu samhengi nefnir Hjálmar stefnu Crowberry Capital, sem Helga Valfells, einn stofnenda sjóðsins, útlistaði í viðtali í Viðskiptablaðinu í fyrra. „Þær leggja sérstaklega áherslu á að fyrirtækin sem þau fjárfesta í velti fyrir sér hvernig þau ætli að fjármagna sig áfram í þeim skrefum sem fara í vöxtinn og stækkunina þegar varan er orðin til,“ segir Hjálmar.

„Ókosturinn er að við eigum á Íslandi ekki margt fólk sem hefur þessa þekkingu á alþjóðlegri sölu- og markaðsstarfsemi. Það er að mínu viti annar stóri flöskuhálsinn,“ segir Hjálmar. Hinn segir hann vera tækniyfirfærslu – það að færa þekkingu úr háskólum yfir í fyrirtæki. „Þetta var meðal þess sem bent er á í samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og MIT, sem gengur út á að greina áskoranirnar í nýsköpun á hverju landsvæði fyrir sig. Þeir sem koma úr akademíunni segja að það sé flöskuháls sem gerir það að verkum að þekking og hugverk sem verða til í háskólunum fara aldrei lengra. Þar höfum við bent á að tækniyfirfærsluskrifstofa sé annað sem þurfi,“ segir Hjálmar.

Plain Vanilla-áhrifin minna á OZ

Þegar Hjálmar er beðinn um að benda á helstu þróunina sem varð í nýsköpunarumhverfinu á nýliðnu ári segir hann hafa komið sér lítið á óvart hvaða áhrif Plain Vanilla hafði. „Þau flugu hátt í nokkur ár og þar var settur saman hópur af virkilega góðu fólki sem fékk dýrmæta reynslu. Í fyrra urðu svo til nokkur sprotafyrirtæki sem höfðu mjög sterk tengsl og spruttu í rauninni upp úr þeirri gerjun sem varð hjá Plain Vanilla. Báðir stofnendur þess fóru af stað með nýtt fyrirtæki, Teatime Games og líka Viska. Auk þess eru nokkrir aðrir hópar sem ég veit að eru að hugsa sér til hreyfings eða eru að fara inn í önnur fyrirtæki og hafa þannig áhrif,“ segir Hjálmar.

„Að sumu leyti má því segja að þótt Plain Vanilla hafi ekki gengið upp þá hafa áhrifin verið heilmikil. Það er eitthvað sem maður hefur séð áður, til dæmis með OZ fyrir um það bil fimmtán árum,“ segir Hjálmar.

Á tyllidögum og í stjórnarsáttmálum er jafnan farið mörgum og fögrum orðum um mikilvægi nýsköpunar fyrir áframhaldandi hagsæld á Íslandi. Hins vegar má velta upp þeirri spurningu hvað sé gert á borði til að tryggja blómlegan vöxt fyrirtækja í nýsköpun. Hjálmar er þó nokkuð bjartsýnn á stefnu núverandi ríkisstjórnar í málefnum nýsköpunar.

„Það vantar ekki upp á áhugann hjá þeim ráðherrum sem hafa farið með þennan málaflokk en það hafa kannski ekki verið sérstaklega öflug eða áhrifamikil verkefni sett af stað. Ég held hins vegar að þrátt fyrir að síðasta ríkisstjórn hafi verið skammlíf þá hafi í alvörunni verið greinilegur vilji til að gera eitthvað,“ segir Hjálmar og bendir á að það ráðuneyti sé áfram í höndum sama ráðherra. „Vonandi getur hún haldið áfram með það starf. Það er kannski ekki orðið áþreifanlegt ennþá en ég hef tilfinningu fyrir því að það sé líklegra að það verði einhver alvara úr þessu tali núna en oft áður,“ segir Hjálmar.