Ákvörðun um hærra viðmiðunarverð í nýafstöðnu útboði á 22,5% hlut í Íslandsbanka hefði stefnt útboðinu sjálfu í hættu þrátt fyrir að fyrir hafi legið tilboð umfram endanlegt úboðsmagn, þar sem þau var hægt að draga til baka fram að úthlutun. Þetta segir Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins.

Jón Gunnar segir tilboðssölu á borð við þá sem notast var við til að selja ríflega þriðjung af þáverandi eignarhlut ríkisins í lok mars síðastliðins geta verið afar fallvalt ferli. Tilfinning bjóðenda sé lykilatriði og geti súrnað hratt ef út spyrjist að aðrir hafi dregið tilboð sín að hluta eða öllu leyti til baka.

Sjá einnig: Horfðu til hegðunar í frumútboði við úthlutun

„Útboðið hefði fallið um sjálft sig“
„Við teygðum okkur eins langt í þessu eins og við gátum, það er alveg á hreinu. Ef við hefðum hækkað verðið umfram 117 þá hefði verið veruleg hætta á að margir hefðu horfið frá. Ef það hefði svo spurst út þá hefðu aðrir farið að draga í land, og útboðið hefði fallið um sjálft sig. Það hefði hreinlega getað mistekist.“

Málið sé því fjarri því svo einfalt að það snúist um að velja hæsta mögulega verð sem nái því magni sem til standi að selja. „Þú ferð aldrei í útboð nema þú sért með að minnsta kosti tvöfalda tilboðsbók.“

Markaðsaðilar viti nokkurn veginn hvernig þeir séu metnir og hvaða úthlutun þeir muni fá í samanburði við aðra. Fái þeir lága hlutfallslega úthlutun viti þeir að eftirspurn var góð og bréfin eru eftirsótt, en á móti geti mikil úthlutun skapað slæm hughrif, sem síðan hafi neikvæð áhrif á verðþróun á eftirmarkaði.

Söluframboð hafi verið orðið mjög lítið
Til viðbótar við hættuna á að fjárfestar drægju til baka tilboð sín segir Jón Gunnar að of hátt verð hefði getað haft neikvæð áhrif á verðþróun bréfanna í kjölfar útboðsins. Hið sama eigi við um hugmyndir um að úthluta aðeins til langtímafjárfesta, sem sumir hafa gagnrýnt að hafi ekki verið gert.

„Þú þarft báðar tegundir fjárfesta til að allt gangi vel á eftirmarkaði. Ef það hefði allt farið til stórra fjárfesta sem hreyfa sig ekki þá hefði ekki átt sér stað alvöru verðmyndun. Söluframboð bréfanna var orðið mjög þunnt og veltan alltof lítil, en jókst verulega í kjölfar útboðsins, án þess þó að hafa neikvæð áhrif á verðið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .