Heildverslunin Ó. Johnson & Kaaber hagnaðist um 134,5 milljónir á síðasta ári en það er ríflega tvöfaldur hagnaður ársins 2019. Velta félagsins nam tæplega 4,2 milljörðum króna, samanborið við tæpa 3,5 milljarða árið áður, en rekstrargjöld námu 3,9 milljörðum og jukust um 558 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam því um 216 milljónum, samanborið við 94,5 milljónir árið 2019.

Laun og launatengd gjöld námu 587 milljónum og jukust um 78 milljónir milli ára en fjöldi ársverka á árinu voru 72 og fjölgaði um 5 ársverk frá fyrra ári.

Eignir félagsins námu tæpum 1,6 milljörðum króna í árslok, samanborið við 1,3 milljarða ári fyrr. Skuldir jukust um 16% milli ára og námu ríflega milljarði og eigið fé jókst um 18,5% og nam ríflega hálfum milljarði. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 34,6% í árslok eða hálfu prósentustigi hærra en ári fyrr.

Fram kemur í skýrslu stjórnar að í upphafi veirufaraldurs hafi óvissan verið töluverð en þegar leið á árið hafi komið í ljós að áhrifin væru óveruleg. Félagið hafi hvorki nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna frestunar gjalda né úrræði viðskiptabanka.

Ólafur Ó. Johnson er framkvæmdastjóri félagsins.