Gengi hlutabréfa Twitter hefur lækkað um 10,5% á eftirmarkaði eftir að samfélagsmiðillinn birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung. Tap fyrirtækisins á tímabilinu nam 116,5 milljónum dollara og jókst um 9,3 milljónir frá fyrra ári. Tekjur á tímabilinu námu 573,9 milljónum dollara og drógust saman um 4,7%.

Heildarfjöldi  mánaðarlegra notenda Twitter stóð í stað á tímabilinu og er fjöldi þeirra enn 328 milljónir. Þá drógust auglýsingatekjur saman um 8% og námu 489 milljónum á tímabilinu. Þrátt fyrir að fjöldi mánaðarlegra notenda hafi staðið í stað þá jókst fjöldi þeirra sem nota miðilinn daglega um 12% miðað við sama tímabil í fyrra.