Sökum áhrifa af kórónufaraldrinum hefur dregist úr leigubílaþjónustu Uber og hyggst félagið því auka við sig í matvælasendingu. Uber reyndi að kaupa félagið Grubhub, án árangurs, en stefnir nú að kaupa félagið Postmates sem er þó töluvert minna.

Að mati Dan Ives, greinandi fyrir fjármálafyrirtækið Wedbush Securities, gæti Uber sparað sér um 7-10 ár með yfirtöku á Postmates, fremur en að stækka Uber Eats. Pantanir Uber Eat jukust um 52% á fyrsta ársfjórðungi félagsins samanborið við sama tímabil í fyrra. Wall Street Journal greinir frá.

Í maí síðastliðinn sagði Uber upp fjórðung af starfsmönnum sínum. Félagið er virði um 53 milljarða Bandaríkjadali en hlutabréf þess hafa hækkað um rúm 3% það sem af er árs en lækkað um rúm 30% síðasta árið.