Hagnaður Júpiters rekstrarfélags, sem er í eigu Kviku banka, tvöfaldaðist á árinu 2017 frá fyrra ári og nam hann rúmum 59 milljónum króna að því er Fréttablaðið greinir frá. Hreinar rekstrartekjur félagsins jukust á árinu um 22% og námu þær 347 milljónum króna en rekstrargjöldin jukust minna, eða um 10% og námu þau 272 milljónum króna.

Í lok síðasta árs námu eignir félagsins 229 milljónum króna sem er aukning frá byrjun ársins þegar þær námu 152 milljónum. Eigið fé félagsins nam 160 milljónum í lok árs 2017 og eiginfjárhlutfallið var 18,8%.

Félagið rak 22 sjóði auk eins samlagsfélags í lok síðasta árs, og var félagið með 70,3 milljarða króna í stýringu. Það er mikil aukning frá upphafi síðasta árs þegar félagið var með 31,3 milljarða í stýringu. Nemur aukningin ríflega 124% yfir árið.
Ekki verður greiddur arður út til hluthafa vegna síðasta árs að því er stjórn félagsins hefur ákveðið.