Athafnamaðurinn Ólafur Ólafsson kemur að viðskiptum með lóðir og fasteignir á Héðinsreitnum svokallaða sem nemur um tveim milljörðum króna að því er segir í Morgunblaðinu .

Um er að ræða lóðirnar Seljavegur 2 og Vesturgata 64, en húsið við Seljaveg er það sem áður hýsti æfingaaðstöðu Mjölnis og þar áður Loftkastalann.

Ólafur Ólafsson er oft kenndur við Samskip þar sem hann var forstjóri, en hann var sakfelldur í Hæstarétti árið 2015 fyrir sinn þátt í Al-Thani málinu svokallaða þar sem hann var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Hróður skráð á heimilisfangi tengt Ólafi

Félagið Hróður ehf., sem áður hét AB 412 ehf. var hæstbjóðandi í lóðina við Vesturgötu 64 og greiddi það 1. febrúar 2016 1.297 milljónir króna fyrir hana. Félagið er skráð á sama heimilisfangi og viðskiptaveldi Ólafs er skráð, og hefur blaðið heimildir fyrir því að hann komi að viðskiptunum.

Félagið Seljavegur ehf. er skráður eigandi að Seljavegi 2, en Morgunblaðið segir að félagið Laugavegur ehf. hafi keypt lóðina af félaginu, en skráður eigandi að því er Sturla Sighvatsson sem starfað hefur fyrir fjárfestingarfélagið Volcanic Capital.

146 herbergja hótel

Á þeirri lóð hefur verið sótt um leyfi til að reka hótel með 146 herbergi fyrir allt að 304 gesti. Samkvæmt kynningarefni frá Reykjavíkurborg gætu hins vegar allt að 275 íbúðir rúmast á öllum Héðinsreitnum.

Einnig stendur til að reisa hótel á svonefndum Naustareit, sem er afmarkaður af Vesturgötu, Norðurstíg og Tryggvagötu, en félagið Tryggvagata er skráður eigandi að henni, en það er í eigu félaganna Festir og Laxamýri, en Laxamýri eru í eigu Hjalta Gylfasonar, forstjóra Mannverks og Jónasar Más Gunnarssonar, hluthafa í Mannverki.

Í kjölfar frétta um lóðirnar hefur Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels áréttað að framkvæmdir á lóðunum séu ótengdar og engin tengsl milli eigendanna, en félagið hyggst reka hótel í meginhluta núverandi fasteignar við Seljaveg 2.