Ríflega einn af hverjum fimm Íslendingum er með áskrift að Netflix á sínu heimili, eða 21,6%. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Spurt var: Ert þú eða einhver á heimilinu með áskrift að Netflix? Blaðið birti í lok febrúar í fyrra samskonar könnun og þá sögðust 16,7% aðspurðra vera með áskrift að Netflix. Á þeim 20 mánuðum sem liðnir eru hefur íslenskum áskrifendum að Netflix því fjölgað töluvert eða um 4,9 prósentustig. Miðað við að á Íslandi séu 124 þúsund heimili má gróflega áætla að um 27 þúsund þeirra séu með áskrift að Netflix.

Fjöldi áskrifenda að Netflix er áhugaverður fyrir þær sakir að ekki er boðið upp á þjónustuna með löglegum hætti hér á landi. Notendur þurfa að fara krókaleiðir til þess að fá aðgang en það virðist ekki þvælast fyrir fólki, sérstaklega ekki yngra fólki. Kjósendur Framsóknarflokksins eru ólíklegastir til að kaupa sér áskrift að Netflix á næstu sex mánuðum. Einungis 2% þeirra sem segja það öruggt eða líklegt. Kjósendur Vinstri grænna eru hins vegar líklegastir en 26% þeirra segja öruggt að líklegt að þeir kaupi sér áskrift

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Rekstur Marel batnar verulega frá því í fyrra.
  • Allt bendir til þess að greiðslujafnaðarvandi vegna slitabúa hafi verið leystur.
  • Einungis lítill hluti af tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar hefur raungerst.
  • Þrjú fyrirtæki hafa um 85% hlutdeild á dagvörumarkaði.
  • Reykjanesbær er ekki lengur það sveitarfélag sem skuldar mest í samanburði við tekjur.
  • Forstjóri Alp segir að fjölgun bílaleiga undanfarin ár sé hálfgerð þvæla.
  • Kauphallarsjóðir bjóða upp á mikla möguleika fyrir íslenska fjárfesta.
  • Svipmynd af Ólafi Erni Nielsen, framkvæmdastjóra Kolibri.
  • Ítarlegt viðtal við Ingimund Sigurpálsson, forstjóra Íslandspósts.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Landsvirkjun.
  • Óðinn fjallar um landsfundi og ríkisbanka.