Kostnaður tryggingafélaganna vegna vinnuslysa er að meðaltali 3,7 milljarða króna á ári. Þá er bæði átt við vinnuslys á landi og sjó.

Áætlaður kostnaður tryggingafélaga vegna vinnuslysa á landi er um 2,3 milljarðar að meðaltali á ári. Er sá kostnaður reiknaður út frá tölum VÍS og markaðshlutdeild félagsins. Samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins er áætlaður kostnaður félaganna vegna slysa á sjó um 1,4 milljarðar króna á ári.

Árið 2007 urðu samtals 1.926 vinnuslys á Íslandi. Á þessum árum var mikil uppsveifla í efnahagslífinu og gríðarlega miklar byggingaframkvæmdir víðs vegar um land. Í kjölfar kreppunnar fækkaði slysunum mikið og árið 2010 voru 1.338 slys. Eftir þetta fór vinnuslysum aftur að fjölga og árið 2014 voru þau 1.898 talsins. Á fimm árum varð því tæplega 42% aukning í vinnuslysum hérlendis. Endanlegar tölur fyrir fjölda vinnuslysa árið 2015 liggja ekki fyrir en að sögn Gísli Níls Einarssonar, sérfræðings í forvörnum hjá VÍS, bendir allt til þess að fjöldinn verði svipaður og árið 2014.

Gísli Níls segir að ýmsir þættir skýri mikla aukningu vinnuslysa milli áranna 2010 og 2014.

„Fólk er orðið meðvitaðra um réttindi sín og fyrirtæki eru líka orðin duglegri að tilkynna um slys," segir Gísli Níls. „Þetta skýrir aukninguna að stórum hluta." Hann segir að undanfarin ár lögmannsstofum, sem leggi áherslu á að fólk sæki sér slysabætur, fjölgað mikið. Þetta hafi líka haft mikið að segja um þróunina. „Þetta er sem sagt samspil margra þátta. Frá árinu 2012 hefur byggingaiðnaðurinn tekið við sér og það hefur líka áhrif."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .