Sala sýningarsvæðis á Verk og vit 2018 gengur vel og nú þegar eru um 80% sýningarsvæðisins seld og um 80 sýnendur skráðir til leiks segir í fréttatilkynningu.

þrátt fyrir þetta eru enn séu um fjórir mánuðir í stórsýninguna Verk og vit sem er ætluð framleiðendum og innflytjendum sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, hönnuðum, menntastofnunum og ráðgjöfum.

Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar segist hafa fundið fyrir miklum áhuga á sýningunni. „Það er mikill uppgangur í byggingariðnaði og manvirkjagerð og margar framkvæmdir á teikniborðinu,“ segir Ingibjörg Gréta.

„Verk og vit hefur sýnt og sannað að hún er góður vettvangur fyrir aðila til að hittast, kynna vörur og þjónustu ásamt því að ræða málin, sem meðal annars skýrir þessa góðu þátttöku.“

Verk og vit er nú haldin í fjórða sinn dagana 8.–11. mars 2018 í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Fyrstu tvo dagana, 8. og 9. mars, verður sýningin opin fyrir fagaðila en helgina 10.–11. mars verður almenningur einnig boðinn velkominn.

Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.