Umboðsmaður Alþingis hefur fellt niður frumkvæðisathugnarmál sitt er varðar þjónustugjöld og útfærslur þeirra. Umrætt mál var stofnað í málaskrá embættisins árið 1996 en ekki hefur gefist tími til þess að vinna málið sökum þess hve fjárheimildir embættisins eru knappar. Í stað þess að ljúka athuguninni mun umboðsmaður taka kvartanir, er lúta að þjónustugjöldum, til meðferðar.

Leiðrétting 12.41 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var staðhæft að bréfið hefði verið sent af Kjartani Bjarna Björgvinssyni, settum umboðsmanni Alþingis. Það er rangt. Hið rétta er að þar var á ferð Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Meginmáli, myndefni og myndatexta hefur verið breytt í samræmi við þetta. Beðist er afsökunar á þessum mistökum.

Þetta kemur fram í bréfi sem umboðsmaður Alþingis hefur sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins og fjármála- og efnahagsráðherra.

Ráðist var í umrædda athugun í kjölfar stjórnarskrárbreytinganna 1995 þar sem meðal annars var kveðið á um að skatta megi ekki innheimta nema samkvæmt heimild í lögum. Opinberum aðilum getur aftur á móti verið heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu en upphæð þess má ekki vera umfram þann kostnað sem af veitingu hennar hlýst. Í framkvæmd hafa skilin þarna á milli verið nokkuð óskýr.

„Sú eftirfylgni og kvartanir sem hafa borist umboðsmanni á síðustu árum urðu til þess að þungi athugunarinnar sem upphaflega beindist að beinum skattlagningarheimildum færðist yfir á heimildir til töku þjónustugjalda og framkvæmd stjórnvalda á þeim. Tilefni þessa voru ekki síst álitaefni um mörkin milli skatta og þjónustugjalda og þar með hvort lagaheimildir til töku þjónustugjalda væru fullnægjandi að teknu tilliti til þeirra krafna sem leiða af áðurnefndum stjórnarskrárákvæðum og lögmætisreglunni,“ segir í bréfi umboðsmanns.

Í bréfinu segir að umfang vinnunnar sé mikið og hún tímafrek enda þyrfti að reikna út grundvöll hvers gjalds fyrir sig en þau eru fjölmörg. Skortur á mannafla og fjármunum leiði til þess að umrædd athugun hefur verið felld niður.

Rotþrær, rafrettur og úrskurðarnefnd

Þess í stað mun umboðsmaður ljúka málum sem stofnast hafa á undanförnum árum vegna kvartana til embættisins er varða þjónustugjöld. Má þar á meðal nefna 75 þúsund króna gjald vegna eftirliti með markaðssetningu rafrettna og áfyllinga fyrir þær en það gjald leggst á hvert og eitt markaðssett vörunúmer.

Einnig er til skoðunar gjald sem ber að greiða við kæru mála til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, 150 þúsund krónur fyrir að kæra mál til nefndarinnar, og rotþróargjald í sveitarfélagi þar sem fjögur árgjöld fyrir hreinsun voru rukkuð þrátt fyrir að aðeins hefði verið hreinsað eitt sinn. Þetta er aðeins brot af þeim málum sem eru til skoðunar.

„Eins og lýst hefur verið hér að framan, og áður á vettvangi forsætisnefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hafa möguleikar umboðsmanns Alþingis til að sinna frumkvæðisathugunum að undanförnu verið takmarkaðir vegna skorts á mannafla. Og það eru ekki horfur á að breyting verði þar á, a.m.k. næstu misseri. Þótt þannig séu ekki tök á því af hálfu umboðsmanns Alþingis að sinna frekar þeirri athugun á lagaheimildum til töku þjónustugjalda og framkvæmd stjórnvalda á þeim í samræmi við það sem lýst hefur verið hér að framan er það áfram afstaða mín að þörf sé á að þessi mál verði tekin til heildstæðrar athugunar. Hér á það við eins og um aðrar reglur sem eru til verndar mannréttindum að þær eru í þágu borgaranna en ekki stjórnvalda,“ segir í niðurlagi bréfs umboðsmanns.