Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir rökstuðningi heilbrigðisráðuneytisins (HRN) fyrir 75 þúsund króna gjaldi sem félög þurfa að greiða vegna markaðssetningar á rafrettum. Krefst umboðsmaður þess að gerð sé grein fyrir því hvernig það standist lög og reglur stjórnsýslureglur um þjónustugjöld.

Tilefni bréfsins er kvörtun Félags atvinnurekenda vegna gjaldsins. Umrætt gjald var lagt á fyrir ellefu mánuðum síðan en engin kostnaðargreining lá fyrir vegna þess. Kostnaðargreining þess virðist hafa verið unnin eftir á.

Í erindi umboðsmanns til heilbrigðisráðuneytisins segir að þjónustugjald verði ekki innheimt án heimildar í lögum og verði eingöngu nýtt til að standa straum af kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin tekur til. Stjórnvaldi sé aðeins heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem sé í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu sem sé sérstaklega tilgreind í gjaldtökuheimildinni, en ekki megi afla almennra rekstrartekna með innheimtu þjónustugjalda.

„Ég hef hins vegar staldrað við þessa þróun síðustu ár í tengslum við frumkvæðisathugun mína á gjaldtöku stjórnvalda í formi skatta og þjónustugjalda,“ segir í bréfi umboðsmanns. „Þannig tel ég mig merkja að verið sé að fjarlægjast þann kjarna þjónustugjalda að borgarinn greiði eingöngu fyrir þá þjónustu sem hann fær frá stjórnvaldinu í umræddu tilviki og að borgararnir séu í auknum mæli látnir greiða fyrir tilvist og almenna rækslu stjórnvalda á lögbundnum verkefnum þeirra með greiðslum sem felldar eru undir þjónustugjöld,“ segir í bréfi umboðsmanns.

HRN hefur verið veittur frestur til 20. ágúst til að svara erindinu.