Samkeppniseftirlitið stóð í fyrradag fyrir fundi um stöðu samkeppni með tilliti til eignarhalds atvinnufyrirtækja. Tilefnið er mikil samþjöppun eignarhalds fyrirtækja sem starfa á sama markaði, sem orsakast af því að nokkrir stofnanafjárfestar, einkum lífeyrissjóðir, eiga stóran hluta af stærstu fyrirtækjum landsins.

Sem dæmi um mikla samþjöppun eignarhalds má nefna tryggingamarkaðinn. Fjórir stærstu stofnanafjárfestarnir sem eiga hlut í öllum skráðum tryggingafélögum eiga samtals 26% í Sjóvá, 25% í VÍS og 31% í TM.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að mikilvægt sé að tryggja að keppinautar séu sem sjálfstæðastir. „Ef eignarhaldið er líkt, það eru sömu aðilar sem standa að því í fleiri en einum keppinaut, þá skapar það ákveðnar áskoranir,“ segir Páll. „Rannsóknir benda til þess erlendis að svona aðstaða geti verið til þess fallin að hækka verð til viðskiptavina. Það er auðvitað alls ekki gott, og það er ábyggilega ekki það sem vakir fyrir stofnanafjárfestum og allra síst lífeyrissjóðum. En þetta er bara staða sem við verðum að spila úr.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .