Þjóðhagslegur kostnaður tafa í umferðarkerfi borgarinnar er yfir 15 milljarðar króna að því er fram kemur í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins. Áætla samtökin að um 19 þúsund klukkustundum hafi verið sóað í umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu á hverjum virkum degi í fyrra, sem gerir að meðaltali 6 milljónir klukkustunda á ári.

Miðað við algengar forsendur um meðalfjölda í bíl lætur því nærri að hver íbúi höfuðborgarinnar hafi eytt ígildi rúmlega þriggja vinnudaga í umferðartöfum á árinu.

Segja samtökin að miðað við nýlegt umferðarlíkan VSÓ fyrir höfuðborgarsvæðið megi sjá að íbúar í úthverfum sem vinna í miðsvæðis hafi sóað hlutfallslega muni meiri tíma í umferðartöfum á götum borgarinnar en meðalíbúi.

Tilraunaverkefni sem engu skilaði

Þannig sé til dæmis íbúi í Grafarvogi um 40% lengur á leið heim úr vinnu en árið 2012, en það ár gerði borgin samkomulag við ríkið um tíu ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna.

Verkefnið fól í sér frestun á stórum samgönguframkvæmdum á svæðinu og átti hlutdeild almenningssamgangna að aukast jafnt og þétt úr 4% ferða árið 2012 í 8% árið 2022. Það hefur ekki gengið eftir, heldur er hlutdeildin enn í 4%.

Eins og áður segir áætla samtökin að þjóðhagslegur kostnaður af þessari tímasóun í umferð höfuðborgarsvæðisins hafi numið um 15 milljörðum króna, bara á síðasta ári.

Þar af hafi atvinnulífið borið um 6 milljarða króna taps vegna tapaðs vinnutíma og almenningur um 9 milljarða taps vegna tapaðs frítíma. Heildarkostnaðurinn sé þó að mati SI mun hærri þar sem tafirnar valdi aukinni orkunotkun, stóraukinni mengun og fleiri slysum sem ekki er tekið tillit til í útreikningum um tímavirði í samgönguhagfræði.

71% framlaga þjóni 4% ferða borgarbúa

Benda samtökin á að samkvæmt verkefnahóp samgönguráðuneytisins um samgönguáætlun til ársins 2033 sé gert ráð fyrir þörf á 90 milljarða króna samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu.

En þrátt fyrir lítinn árangur af auknu fjármagni í almenningssamgöngur eigi tæplega 42 milljarðar króna að fara í kostnað við svokallaða Borgarlínu, sem byggir á hugmyndum borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar og fleiri um sérakreinar fyrir strætisvagna eða léttlestir á föstum áætlunarleiðum innan borgarinnar.

Þegar litið er til þess hvað nefndin leggur til í breytingum á fimm ára samgönguáætlun þá er inniheldur hún 16 milljarða króna viðbótarframlag til Borgarlínunnar og 1,5 milljarða króna í hjóla- og göngustíga.

Samkvæmt þessu mun 71% framlaga til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu fara í þessa tvo þætti á næstu fimm árum og 65% í Borgarlínuna, sem samtökin segja undarlega forgangsröðun miðað við að þessi hluti samgönguframkvæmdanna þjóni einungis 4% umferðarinnar. Sérstaklega þegar haft er í huga að tilraunir til að auka hlutdeildina hafi ekki skilað árangri.