Fyrir rétt tæpu ári settist Vilborg Helga Harðardóttir í stól forstjóra hjá Já en ferill hennar hjá félögum innan samstæðunnar spannar orðið um fjórtán ár. Að sálfræðinámi loknu árið 2001 hóf hún störf hjá Gallup uns henni bauðst starf í fjárstýringu hjá Straumi-Burðarási fjórum árum síðar. Þaðan fór hún til Gallup á ný árið 2010 en Já keypti Gallup árið 2015. Tveimur árum síðar tók hún við starfi rekstrarstjóra Já og sem forstjóri af Sigríði Margréti Oddsdóttur, í upphafi febrúar á síðasta ári. Þrátt fyrir mikla reynslu innan félagsins segir forstjórinn að það hafi verið nokkur viðbrigði að taka við nýju starfi.

„Þótt ég hafi unnið heillengi fyrir félagið og talið mig þekkja það ansi vel þá var margt nýtt sem fylgdi hinu nýja hlutverki. Maður kynnist öllum öngum starfseminnar mun betur og það var margt sem ég þurfti að setja mig inn í þrátt fyrir góða þekkingu fyrir. Árið var því allt í senn mjög skemmtilegt, lærdómsríkt og krefjandi,“ segir Vilborg.

Um það leyti sem Vilborg tók við nýju starfi ríkti talsvert óvissuástand í efnahagsmálum, meðal annars þar sem óljóst var um niðurstöður kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og hvort Wow air næði að halda flugi eður ei.

„Við fundum, eins og flestir, fyrir þessari óvissu og kólnun í aðdraganda og í kjölfar falls Wow. Við þurftum að grípa til hagræðingaraðgerða en eftir því sem líða tók á árið leið okkur stöðugt betur. Þannig við förum bjartsýn inn í þetta ár,“ segir Vilborg.

Já var upphaflega stofnað árið 2005 í kringum útgáfu símaskrárinnar og rekstur upplýsinganúmersins 1818, áður 118. Líkt og alþekkt er hefur orðið gjörbylting frá þeim tíma í tæknimálum.

„Við höfum verið í stafrænni umbreytingu lengi og tækniþróunin og samkeppnisumhverfið hefur tekið sífelldum breytingum. Samhliða aukinni eign almennings á snjallsímum hefur eftirspurn og notkun innhringihluta starfseminnar í raun dregist saman í beinu, öfugu hlutfalli,“ segir forstjórinn.

Frá stofnun hefur félagið farið í gegnum algjöra umbreytingu og áfram heldur þjónustan að færast og breytast og því þarf fyrirtækið sífellt að vera á tánum til að missa ekki af lestinni.

„Þótt stafræn þróun og sjálfvirknivæðing séu ekki ný af nálinni fyrir Já þá er þetta stanslaus áskorun. Breytingarnar gerast alltaf hraðar og hraðar þannig að það er nauðsynlegt að vera með augun opin og bregðast við þróuninni. Síðastliðin tvö ár höfum við lagst í vinnu við að breyta skipulagi innanhúss til að koma til móts við hraðann. Áður var vinnulagið þannig að færri komu með innlegg og að ákvarðanatöku varðandi nýsköpun, en nú eru það teymi fólks sem eru blanda af greiningar- og tæknifólki auk starfsmanna sem eru í beinu sambandi við viðskiptavininn,“ segir Vilborg.

N ánar er rætt við Vilborgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .