Hæstiréttur Ísland hefur fallist á að veita áfrýjunarleyfi í máli Gísla Reynissonar gegn íslenska ríkinu. Málflutningur fyrir Hæstarétti mun meðal annars lúta að mörkum leyfilegrar umfjöllunar lögreglu og ákæruvalds í sakamálum.

Málið á rætur að rekja til Aserta-málsins svokallaða. Gísli var um skeið grunaður í málinu um brot á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra. Á meðan rannsókn stóð var hann handtekinn, húsleit gerð á heimili hans, gögn haldlögð, fjarskiptatæki rannsökuð og eignir kyrrsettar í tvígang. Gísli var sýknaður af ákæru í héraði, dóminum áfrýjað en síðar fallið frá henni.

Gísli höfðaði mál á hendur ríkinu til greiðslu bóta. Í fyrsta lagi miskabóta en einnig skaðabóta fyrir missis tekna. Í málinu er byggt á bótareglu sakamálalaganna og almennri sakarreglu skaðabótaréttarins.

Í héraði var ríkið dæmt til að greiða 1,4 milljónir króna í miskabætur vegna kyrrsetningar og haldlagningar á fjármunum hans og eignum sem og bætur vegna ummæla Helga Magnúsar Gunnarssonar, núverandi vararíkissaksóknara og þáverandi yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, á blaðamannafundi um efnið og í viðtali við RÚV og Morgunblaðið.

Í Landsrétti voru honum dæmdar 2,5 milljónir króna í miskabætur vegna rannsóknaraðgerða og sökum þess hve meðferð málsins dróst á langinn. Ekki var hins vegar fallist á greiðslu bóta vegna atvinnutjóns eða bætur vegna ummæla saksóknara. Á blaðamannafundinum sagði saksóknarinn meðal annars að ákæruvaldið teldi brotin sönnuð en gerði þó þann fyrirvara að um „grunsemdir og annað slíkt“ hefði verið að ræða. Í viðtali við Morgunblaðið sagði hann: „Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“

Gísli fór fram á áfrýjunarleyfi á þeim grunni að dómur gæti haft verulegt almennt gildi. Í fyrsta lagi varðandi mörk leyfilegrar umfjöllunar lögreglu og ákæruvalds í sakamálum. Í annan stað í hvaða tilvikum megi dæma bætur að álitum fyrir atvinnutjón og hins vegar vegna kyrrsetningar eða haldlagningar reiðufjár. Í síðara tilfellinu geti bótaréttur hans varla verið verri en samkvæm lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Hæstiréttur féllst á að dómur í málinu gæti hæft fordæmisgildi um þau atriði og féllst því á að veita áfrýjunarleyfi.