Umsókn um stuðningslán var virkjuð á ísland.is 9. júlí s.l. en síðan þá hafa 171 fyrirtæki sótt um grunnlán fyrir allt að 10 milljónir króna með 100% ríkisábyrgð. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins .

Þar af hafa 56 fyrirtæki til viðbótar sótt um auka-stuðningslán, allt að 40 milljónir króna með 85% ríkisábyrgð. Samtals gera þetta 227 lán fyrir tæpa 2,2 milljarða (2.176.000.000).

Stuðningslán eru hluti af viðspyrnuaðgerðum stjórnvalda og er ætlað að styðja við smærri og meðalstór fyrirtæki sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli.

Tekið er á móti umsóknum um stuðningslán á Ísland.is en stjórnvöld hafa samið við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku, Landsbankann og Sparisjóðina um framkvæmd lánanna. Fyrirtæki fá því lán afgreidd hjá sínum viðskiptabanka.