Í byrjun mánaðarins kynnti danski hagfræðingurinn Lars Christensen skýrslu um íslenska raforkumarkaðinn sem hann vann að beiðni Samtaka iðnaðarins. Í skýrslunni bendir hann á að Landsvirkjun framleiði 70% alls rafmagns í landinu og er ein helsta niðurstaða hans sú að til að skapa raunverulega samkeppni þurfi að skipta Landsvirkjun upp í smærri einingar.

Í viðtali við Viðskiptablaðið gagnrýnir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, skýrsluna sem hann telur m.a. ekki taka tillit til þess að Landsvirkjun starfi á tveimur mörkuðum, stóriðjumarkaðnum og heildsölumarkaðnum. Benti hann á að um 80% af raforku landsvirkjunar færu á stóriðjumarkaðinn, sem sé hluti af alþjóðlegum markaði. Hörður taldi jafnframt sérstakt að Samtök iðnaðarins hafi kallað eftir slíkri skýrslu því skýrsluritari sé augljóslega ekki að hafa áhyggjur af samningsstöðu stóriðjunnar.

Átti ekki von á þessum viðbrögðum

Aðspurður segist Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, undrandi á viðbrögðum forstjóra Landsvirkjunar við því að gerð sé málefnaleg og efnisleg greining á stöðu raforkumarkaðar og hvernig er hægt að bæta hann með tilliti til virkrar samkeppni og samkeppnishæfni. „Ég átti ekki alveg von á þessum viðbrögðum við eðlilegri umræðu,“ segir hann.  Almar segir alls ekki óeðlilegt að samtökin hafi kallað eftir skýrslunni. „Innan samtaka iðnaðarins er fjölbreytt flóra fyrirtækja og það er þannig að öll heimili og fyrirtæki, bæði stór og smá, nota raforku. Þetta er því lykilaðfang í allri starfsemi. Undanfarið hefur verið mjög mikil umræða víða um land á meðal stærri jafnt sem smærri fyrirtækja um stöðuna á raforkumarkaðinum. Það er ástæðan fyrir því að við ákváð- um að fá öflugan hagfræðing til að greina stöðuna og velta fyrir sér hvernig megi bæta kerfið.“

Almar bendir á að varðandi annars vegar heildsölumarkað og hins vegar stórnotendur í raforku þá sé staðan í heild þannig að Landsvirkjun framleiði rúmlega 70% af þeirri raforku sem fari í sölu. Sú staða sé nokkurn vegin fyrir hendi bæði hvað varaði stórnotendur og heildsölumarkað. „Það er mjög eðlilegt að málefnaleg umræða eigi sér stað um það að svo mjög stór hluti raforku komi frá einum aðila. Allir þeir sem þekkja umræðu um samkeppnismál hljóta að velta þessu fyrir sér. Við verðum líka vör við það að þessi staðreynd hefur kallað fram mikil viðbrögð jafnt hjá fyrirtækjunum sem og í stjórnmálum og úr orkugeiranum sjálfum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.