Ofarlega á lista yfir vinsælt íslenskt tónlistarfólk á Spotify má finna listamann sem kallar sig Ouse, nítján ára Króksara sem hóf tónlistarferil sinn í svefnherbergi sínu á Sauðárkróki. Í dag hefur Ouse fleiri hlustendur á Spotify en margt nafntogaðasta tónlistarfólk landsins. Hann gerði nýlega risasamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Twelve Tones og festi í kjölfarið kaup á húsi í Reykjavík.

Ásgeir Bragi Ægisson, 19 ára tónlistarmaður frá Sauðárkróki, hefur skipað sér í röð vinsælustu íslensku tónlistarmanna á Spotify. Ásgeir Bragi gefur tónlist sína út undir listamannsnafninu Ouse og þegar þetta er skrifað er hann með ríflega 1,2 milljónir mánaðarlegra hlustenda á tónlistarveitunni.

Vinsælasta lag hans, Dead Eyes, hefur verið spilað yfir 40 milljón sinnum á Spotify, og lagið hans Lovemark hefur verið spilað hátt í 19 milljón sinnum. Þá hefur hann gefið út nokkur lög til viðbótar sem hafa náð nokkrum milljón spilunum. Að sögn Ásgeirs fór hlustunin hægt og rólega af stað framan af, áður en hún fór að aukast töluvert.

„Eitt og eitt skipti rötuðu lög sem ég gaf út inn á svona Youtube rásir sem setja óþekkt indie lög á spilunarlista sína, sem gefa lögunum búst á Spotify, iTunes og svoleiðis. Fólk heyrir lögin þar og kíkir svo betur á þessa tónlistarmenn sem þau hafa aldrei heyrt um. Það hjálpaði mér alveg helling, til dæmis með lagið mitt Lovemark," segir Ásgeir.

Í kjölfarið hafði ein af stærri slíkum Youtube rásum samband við Ásgeir varðandi það að setja fleiri lög frá honum á rásina. Í kjölfarið gerði hann lag í samstarfi við rásina og tónlistarmann sem kallar sig Powfu, en þeir höfðu einnig unnið að laginu Lovemark saman.

„Þau auglýstu svo lagið á rásinni og settu inn á spilunarlista sína á Spotify. Lagið er sem sagt Dead Eyes, sem er komið með yfir 40 milljón spilanir á Spotify. Það gerðist held ég bara í janúar á þessu ári að spilun lagsins fór upp á fullu."

Samstarfið við Powfu gefist vel

Hann segir samstarfið við Powfu hafa hjálpað mikið við að koma lögum hans á framfæri, en Powfu er með yfir fjórtán milljónir mánaðarlegra hlustenda á Spotify.

„Powfu er orðinn alveg rosalega vinsæll, hann gerði lag sem sló í gegn á TikTok sem heitir Death Bed, en það hefur verið spilað meira en 800 milljón sinnum á Spotify. Hann er sem sagt orðinn alveg mjög frægur og þessi lög sem ég hef gert með honum voru á „autoplay" eftir Death Bed á Spotify, þannig að ef fólk var að hlusta á þetta lag sem var rosalega vinsælt þá kom mitt lag strax á eftir því, sem skilaði hellings hlustun."

Tónlist Ásgeirs er þægileg áheyrnar og almennt í rólegri kantinum. Lögin eru blanda af rappi og söng og textarnir eru tilfinningaríkir. Ásgeir segir erfitt að festa reiður á því hvernig skilgreina megi tónlist hans, hún sé blanda af ýmsum straumum og stefnum og hafi henni meðal annars verið lýst sem „indie", poppi, „alternative", hiphopi og emo rappi.

„Lögin mín eru mjög fjölbreytt, hvert einasta lag er ólíkt því fyrra, og það er kannski bara stíllinn minn. Hlustandinn veit aldrei við hverju á að búast og það er það sem ég reyni að gera."

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .