Uppfæra þarf tæknilega innviði Suez-skurðarins í Egyptalandi við fyrsta tækifæri til að koma í veg fyrir álíka óhöpp og nýlega er flutningaskipið Ever Given sat fast í skurðinum í sex daga, með tilheyrandi röskunum á vöruflutninga víða um heim. Þetta segja sérfræðingar í skipaiðnaðinum sem Reuters ræddi við .

Algengt er að flutningaskip sigli um Suez-skurðinn á ferðum sínum og er enn unnið að því að vinda ofan af þeim kostnaðarsömu töfum sem urðu vegna óhappins.

Að sögn þeirra sem stýra Suez-skurðinum er von á nýjum dráttarbátum sem hægt verði að nota er sambærileg atvik koma upp síðar. Fyrrnefndir sérfræðingar eru þó á því að meira þurfi til. Löngum hafi skort sérhæfðan búnað og verklagsreglur til að halda í við stóraukna skipaumferð um skurðinn. Bendir einn sérfræðingurinn einnig á að gámaskip hafi farið stækkandi undanfarin ár.