Nýtt ár boðar ekki minni óvissu í heimsmálunum en það sem nú er liðið. Þar horfa menn ekki síst til pólitískrar óvissu, sem kristallast í valdatómarúmi í mörgum frjálslyndum lýðræðisríkjum heims í Evrópu, á sama tíma hinir ýmsu valdsherrar hafa fremur hert tök sín í nokkrum stórríkjum heims öðrum. Ekkert virðist heldur hagga hinum hviklynda Bandaríkjaforseta, sem lítur beinlínis á það sem erindi sitt að hrista upp í hlutunum, jafnt á heimsvísu og heimavelli. Það er svo tæplega bjartsýnisefni, að það virðist hilla undir endalok uppgangstímans í Bandaríkjunum, komið er að niðursveiflu á evrusvæðinu sem er mjög illa undir hana búið eftir fjármálaþrengingar undanfarins áratugar og fáir vilja veðja miklu á að ekki geti dregið til tíðinda í Kína. Gleðilegt ár!

Í Evrópu ættu menn að vera í óða önn að undirbúa hátíðarhöld í tilefni af 30 ára afmælis falls Berlínarmúrsins, en þar hafa menn hugann við flest annað. Þar er nærtækast að horfa til þeirra dæmalausu vandræða, sem Bretar hafa átt í með að hrinda Brexit í framkvæmd. Þegar þessar línur eru lesnar hefur þú, lesandi góður, verulegt forskot á höfundinn, því þú veist hvort Theresa May er enn forsætisráðherra eða ekki, en um það hefur greinarhöfundur enga hugmynd vegna hinnar fáránlegu einstefnu í framvindu tímans, en þessi orð eru skrifuð um miðjan desember.

En hvernig sem því er farið blasir við að húsráðandinn í Downingstræti 10 á ekki sjö dagana sæla. Hann er að komast í tímaþrot, Evrópusambandið má heita honum óvinveitt, pattstaða í þinginu, pólitísk staða hans og umboð afar veik og þjóðin –burtséð frá afstöðu hvers og eins til Brexit – orðin nær úrkula vonar að þingræðið ráði við verkefnið og efasemdir uppi um að lýðræðið sé virt.

Merkel á síðustu metrum

En þegar litið er yfir Ermarsund er ástandið engu skárra ef að er gáð. Evrópusambandið hefur sjálfsagt aldrei verið jafnlaust við lýðræðislega, pólitíska forystu. Angela Merkel Þýskalandskanslari er svo þorrin kröftum, að einu virðist gilda hvort hún hættir á morgun eða þraukar til 2021. Það er opinbert leyndarmál að hún var ekki sérstaklega áfram um að bjóða sig fram 2017, en lét til leiðast til að veita Evrópu forystu og kjölfestu við fyrirsjáanlegar hræringar af völdum Donalds Trump.

Það hefur hins vegar lítt gengið eftir, öðru nær raunar, því Þjóðverjar eru að átta sig æ betur á því hve illa þeir eru búnir til þess að eiga sjálfstæða utanríkispólitík nú þegar pax americana – hinn langvinni friður í skjóli Bandaríkjanna – virðist vera að renna sitt skeið. Heiko Maas utanríkisráðherra talaði digurbarkalega um að Þýskaland þyrfti að verða mótvægi við Bandaríkin meðal rótgróinna lýðræðisríkja heims, en síðan hefur komið í ljós að Þýskaland hefur hvorki grundvöll né styrk til þess. Fyrir utan hitt að önnur ríki Evrópusambandsins (ESB) horfa með mjög misjöfnum hætti á þessi mál, en eru sennilega allra síst á því að fela Þýskalandi slíkt forystuhlutverk, að einhverju leyti af sögulegum ástæðum, en aðallega vegna þrenginga undanfarinna ára, sem margir hafa viljað rekja til þess að hagsmunir Þýskalands hafi verið látnir ganga fyrir á vettvangi ESB.

Merkel á lítið pólitískt kapítal eftir á heimavelli og litlu minna meðal annarra Evrópuríkja, sums staðar minna en ekki neitt. Það er ekkert sérstakt sem bendir til þess að meðal Þjóðverja finnist í bráð arftaki hennar, sem haft geti ámóta forystu og frumkvæði á Evrópuvísu og þegar Merkel mátti heita mútter allrar Evrópu. Og ekki nóg með það, því það er engan veginn útilokað að hinn hálfnazíski Alternative für Deutschland (AfD) eða ámóta hreyfingar komist til frekari áhrifa í komandi kosningum og félagsleg ólga í Þýskalandi aukist.

Molnar undan Macron

Hinum megin við Rínarfljót hugðist hinn ungi Frakklandsforseti nota tækifærið og taka að sér að leiða Evrópu og dýpka til muna á samruna Evrópusambandsins, líkt og hann lýsti af aðdáunarverðri hreinskilni síðastliðið vor. Það er svo annað mál hvort önnur aðildarríki Evrópusambandsins vildu láta til leiðast, en á það reyndi ekki. Staða Macrons heima fyrir var mun veikari en sýndist; hann náði kjöri aðallega fyrir að vera ekki Le Pen, að Sósíalistaflokkurinn var nýhruninn og kjósendur mjög efins um það sem eftir lifði af gamla flokkakerfinu, en pólitískt bakland á hann ekki svo heitið getur.

Macron boðaði nýja tíma og margvíslegar efnahagslegar umbætur í kosningabaráttu sinni, ekki síst á vinnumarkaði, sem hefur um áratugabil verið þjakaður af magnþrungnu regluverki og í herkví herskárrar verkalýðshreyfingar, sem þó hefur ekki nema um 7% launþega á sínum snærum. Eins ráðgerði Macron miklar skattabreytingar, en hinn almenni Frakki ber verulega skattbyrði ofan á mjög háan framfærslukostnað. Til þessa hafa umbæturnar þó verið sáralitlar og þegar eldsneytisgjöld voru hækkuð mikið, sauð upp úr og um miðjan nóvember brutust út mótmæli nýrrar hreyfingar „gulstakka“ – mótmælendur klæðast gulum endurskinsvestum, sem skylt er að hafa í öllum bílum í Frakklandi.

Mótmælin umbreyttust iðulega í óeirðir og skemmdarverk, þannig að eldar hafa logað á helstu götum höfuðborgarinnar síðan. Skoðanakannanir sýna að gulstakkar njóta mikils stuðnings almennings og eftir að hafa lengi skellt skollaeyrum við gaf Macron eftir í byrjun desember, afturkallaði eldsneytisskattana og boðaði ýmsa friðþægingu og fjárburð úr ríkissjóði annan. Mikið efamál er að þær ráðstafanir standist reglur Evrópusambandsins í ríkisfjármálum, en hitt er þó sjálfsagt verra að þær hrifu ekki. Mótmælendur færðust aðeins í aukana og kröfðust jafnvel afsagnar forsetans, sem sakaður er um að vera forseti hinna ríku og bera ekkert skynbragð á kjör hins almenna Frakka og allra síst hinna lægst launuðu. Þær ásakanir eru þeim mun sárari fyrir það að það er mikið til í þeim.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .