Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hefur tilkynnt að það muni birta samsetta hlutfall félagsins mánaðarlega. Greiningaraðili telur ekki ólíklegt að Sjóvá og Tryggingamiðstöðin (TM) munu einnig taka upp þennan sið, þó ekki sé hægt að fullyrða um það. Það muni þó eflaust draga úr flökti í gengi hlutabréfa félaganna í kringum uppgjör þeirra.

„Þriggja mánaða sveiflur í afkomu tryggingafélaganna af vátryggingastarfsemi geta verið miklar, hvað þá mánaðarlegar sveiflur. Það þarf ekki mikið til að tjón undir lok síðasta mánaðarins á tilteknum ársfjórðungi bitni verulega á annars ágætum ársfjórðungi,“ segir Sveinn Þórarinsson hjá hagfræðideild Landsbankans.

„Markaðurinn er því svolítið blindur í aðdraganda þess að tryggingafélögin birta ársfjórðungsuppgjör. Markaðsaðilar vita lítið hvernig þessir þrír mánuðir fóru. Sveiflur í gengi hlutabréfa tryggingafélaganna hafa því verið miklar í kringum ársfjórðungsuppgjör þeirra. Fyrir þá sem greina tryggingafélögin er því jákvætt að hafa meiri upplýsingar um grunnreksturinn í hverjum mánuði, sem ætti að draga úr þessu flökti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .