Vísbendingar eru um að upplýsingar í fjárfestingakynningu Wow air síðasta haust hafi verið ófullnægjandi. Þetta kemur fram í skýrslu skiptastjóra þrotabús félagsins.

Skiptastjórarnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson fengu Deloitte til að vinna greiningu á rekstri og fjárhag félagsins áður en það fór í þrot. Deloitte hafði áður greint stöðuna á þeim tíma er til greina kom að sameina Wow og Icelandair og því lá beinast við, að sögn skiptastjóra, að fá fyrirtækið í verkið.

Líkt og áður hefur verið fjallað um var það niðurstaða greiningarinnar að Wow hafi verið ógjaldfært á miðju ári 2018. Það tímamark hafi mögulega runnið upp fyrr eða strax í apríl 2018. Stefnt er að því að vinna frekari greiningu til að fá á hreint hvenær félagið varð ógjaldfært.

Sjá einnig: Wow ógjaldfært frá miðju ári 2018

Síðasta haust var ráðist í skuldabréfaútboð fyrir Wow air. Í skýrslu skiptastjóra segir að ýmislegt bendi til að upplýsingar um fjárhagsleg málefni fyrirtækisins í fjárfestakynningunni hafi ekki gefið rétta mynd af stöðu félagsins. Til að mynda hefði eigið fé átt að vera neikvætt um mitt ár 2018 þegar farið var af stað með útboðið.

„Varðandi ráðstöfun þess fjár sem safnaðist við skuldabréfaútboðið, þá er kveðið á um það í skilmálum útboðsins að auk kostnaðar við útboðið skyldi fjármununum vera ráðstafað annars vegar á sérstakan vaxtareikning og hins vegar til að fjármagna almennan rekstur félagsins,“ segir í skýrslu skiptastjóra.

Að lágmarki áttu 12,5% upphæðarinnar sem safnaðist, rúmlega 50 milljónir evra, að vera á sérstökum vaxtareikningi. Vaxtagreiðslur átti að inna af hendi fjórum sinnum á ári en fyrsta gjalddaga þeirra bar upp á aðfangadag síðasta árs.

„Þegar [kom að] fyrsta vaxtagreiðsludegi [voru] ekki til staðar fjármunir á vaxtareikningi þar sem félagið hafði nýtt þá í aðrar þarfir, líkt og um venjulegt veltufé væri að ræða,“ segir í skýrslunni.

Til skoðunar er hjá skiptastjórum að krefjast riftunar á greiðslum til þátttakenda í útboðinu. Rúmlega 20 milljónir dollara hafa verið til þátttakenda í útboðinu, þar af 5 milljón dollara greiðsla til Arion banka.