Á ströndum Bennett vatns í Bresku Kólumbíu liggja leifar af því sem varð upphaf fjölskylduauðs Trump fjölskyldunnar, en á þessum stað var á tímum gullæðisins í Klondike, mikilvægur áfangastaður gullgrafara.

Þar græddi meðal annars Friedrich Trump á því að reka veitingastað og bar — en á einungis tveimur árum meðan hann rak staðinn græddi hann það sem varð að uppruni auðæfa forsetaframbjóðandans Donalds Trump.

Flutti frá Þýskalandi 16 ára gamall

Fred, eins og hann var kallaður, flutti frá Þýskalandi þegar hann var 16 ára með lítið meira meðferðis en eina ferðatösku. Hann fór fyrst til New York þar sem hann starfaði sem rakari áður en hann hóf ferð sína vestur í leit að auði.

Við árbakka Bennett byggði hann og samstarfsfélagi hans Ernest Levin veitingastaðinn Arctic Restaurant.

Aðstaða fyrir „einkasamkvæmi“

Veitingarstaður Trumps bauð upp á aðstöðu fyrir einkapartý og konur, eins og það var sagt í auglýsingu í blaðinu Bennett Sun þann 9. desember 1899.

Í hverju slíku einkarými var rúm og vog til að vigta gullduftið sem notað var til að greiða fyrir þjónustuna sem var í boði. Þetta kemur fram í ævisögu þriggja kynslóða Trump fjölskyldunnar eftir Gwendu Blair. Málið er tekið saman í frétt Bloomberg .

Einungis 4% námumanna fundu gull

Á þessum tíma héldu um 100 þúsund námumenn til Klondike til að freista gæfunnar, en einungis um þriðjungur þeirra komst alla leið og einungis 4% þeirra fundu gull. Leið Fred´s Trump til að græða virðist því hafa verið mun árangursríkari.

Þegar járbraut var lögð frá Skagway í Alaska til Whitehorse sem lá framhjá bænum lagðist hann af, en Fred Trump flutti þá rekstur sinn í heilu lagi til Whitehorse.

Ríkur maður á tveimur árum

Árið 1901 þegar hann yfirgaf Whitehorse var hann orðinn ríkur maður, en hann sneri þá aftur til heimabæjar síns Karlstadt am Main í Þýskalandi þar sem hann lagði inn 80 þúsund þýsk mörk í fjárhirslur bæjarins.

Á núverandi gengi myndi það reiknast sem jafngildi hálfrar milljóna evra, eða sem nemur 62 milljónum íslenskra króna.

Trump hafnar lýsingu á rekstri afa síns

Trump segir í sinni eigin ævisögu að afi sinn hafi verið sænskur, en hann sagði jafnfram í viðtali við New York í ágúst að lýsing Blair á rekstri afa síns hafi verið „fjarri sanni.“

Íbúar á svæðinu hyggjast nú endurbyggja gamla námubæinn, og þar á meðal veitingahús Fred´s Trump til að laða að ferðamenn, og munu þeir nýta sér þetta eitt þekktasta eftirnafn heims til að auglýsa áfangastaðinn.