Ed Sheeran tónleikarnir sem fara fram 10. ágúst 2019 á Laugardalsvelli seldust upp með hraði í morgun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Senu. Rúmlega 20 þúsund manns voru í stafrænni biðröð þegar salan hófst en er það margfalt meira en hefur sést áður á Íslandi.

Hefur þá hér með verið sett Íslandsmet í miðasölu en aldrei hafa fleiri miðar verið seldir á eina tónleika og líklega hefur umframeftirspurnin heldur aldrei verið meiri, en mjög margir þurftu því miður frá að hverfa miðalausir.

Ed Sheeran tilkynnti tónleikaferðalag í 14 löndum auk Íslands og fóru allir tónleikarnir í sölu á sama tíma í morgun. Ed er sérstaklega spenntur að koma til Íslands enda mikill aðdáandi Íslands og íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Sena Live og AEG þakka ótrúlega viðtökur.