Ítalski fataframleiðandinn og smásalinn Stefanel sem varð þekkt fyrir prjónaðar peysur er nú alræmt meðal hagfræðinga og bankamanna fyrir allt annað. Að vera svokallað uppvakningafélag. Stefanel hefur skilað tapi á níu af síðustu tíu árum og endurskipulagt skuldir sínar til banka að minnsta kosti sex sinnum að því er kemur fram í frétt á vef The Wall Street Journal.

Stefanel sem óx hratt eftir miðbik 20. aldar hefur átt undir högg að sækja í samkeppni við tískuvörurisann Zöru auk þess að hafa orðið illa úti eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna 2008. Stefanel er enn í rekstri en riðar þó til falls en það er aðeins dæmi um eitt af hundruðum slíkra fyrirtækja sem skila þrálátu tapi víðsvegar í Evrópu en sérstaklega í Suður-Evrópu.

Uppvakningafélag er skilgreint sem félag sem er í hið minnsta tíu ára gamalt, skráð á markað og beri vaxtagjöld sem eru hærri en hagnaður af reglulegri starfsemi, þ.e. hagnaður fyrir vaxtagjöld og skatta.

Á vef The Wall Street Journal segir að hagfræðingar og starfsmenn seðlabanka telji uppvakningafélögin veita ósjálfbæra afslætti og mynda aðgangshindranir að mörkuðum sem komi í veg fyrir að heilbrigðari samkeppnisaðilar komist inn á markaðinn. Að þau hafi ekki verið látin falla komi í veg fyrir að nauðsynleg endurnýjun á mörkuðum sem á sér yfirleitt stað í kjölfar efnahagsáfalls eigi sér stað.

Nú þegar evrópska hagkerfið sé aftur komið á hagvaxtarskeið geti uppvakningafélögin verið dragbítur allrar álfunnar en um 10% allra fyrirtækja í sex evruríkjum eru uppvakningafélög samkvæmt skilgreiningu. Meðal þeirra landa eru Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Spánn en hlutfall þeirra hefur vaxið umtalsvert frá því 2007 þegar það var 5,5%.

Stefna bankanna um að halda lífvana félögum í öndunartækjum ef svo má að orði komast er talin geta komið í veg fyrir að hagkvæm fjármagnsskömmtun eigi sér stað og framleiðnivöxtur. Hagfræðingar segja það framleiðnitap sem hefur átt sér stað í Evrópu megi að hluta til rekja til uppvakningafélaganna en þau séu sumpart ófyrirséð afleiðing af peningastefnu Evrópska Seðlabankans sem hefur dælt út fjármagni í kjölfar efnahagslægðarinnar.