Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur átt viðburðaríkan starfsferil. Hann hóf feril sinn í fjármálageiranum hjá Kaupþingi á Norðurlandi en hélt til Reykjavíkur árið 1999 þar sem hann kom af stað deild eigin viðskipta og var framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi til 2006. Það ár stofnaði hann ásamt öðrum fjárfestingarbankann Saga Capital og var forstjóri hans til ársins 2010. Saga Capital var tekið til slitameðferðar árið 2012 og í lok síðasta árs var Þorvaldur dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í 18 mánaða fangelsi fyrir aðild sína að hinu svokallaða Stím-máli. Þorvaldur áfrýjaði dómnum samdægurs og í sumar stofnaði hann ásamt öðrum flugfélag sem sérhæfir sig meðal annars í útsýnisferðum fyrir ferðamenn.

Þú ventir kvæði þínu í kross og stofnaðir nýverið félag í ferðaþjónustu, flugfélagið Circle Air. Hver er aðdragandinn að því?

„Eftir að hafa starfað á vettvangi atvinnuþróunar og ráðgjafar í fjögur ár vildi ég segja það gott á þeim vettvangi, enda ekki endilega hollt að vera lengi á þeim stað. Það hafði blundað býsna lengi í mér að gera meira í kringum flug, og reyndar hafði ég dustað rykið af gamalli viðskiptaáætlun reglulega undanfarin tíu ár. Uppgangur ferðaþjónustunnar og að því er virðist gott útlit fyrir næstu ár fékk mig síðan til að skoða þetta aftur í vetur, enda ytri aðstæður og þróun undangenginna ára þessu módeli býsna hagfelld. Það fór því á endanum svo að góðir vinir, fjárfestar og fjölskylda fjárfestu í þessari hugmynd sem hefur bara farið ágætlega af stað, þótt stutt sé á veg komið. Ég hef auðvitað sjálfur verið að fljúga ýmsum flugtækjum frá því ég byrjaði í svifflugi sem unglingur og því liggur auðvitað ágætlega við að sameina nokkur áhugamál á þennan hátt og vonandi tekst okkur að láta félagið þroskast og dafna á komandi árum.

Flýgurðu sjálfur fyrir Circle Air?

„Ekki sem stendur, en vegna flugmannaskorts ákvað ég að drífa mig í Flugskóla Íslands og verð þar með annan fótinn í vetur með frábæru fólki í atvinnuflugmannsnáminu. Ég er með næga flugtíma og amerísk atvinnuflugmannsréttindi en er núna að taka evrópsk réttindi, sem eru auðvitað skilyrði fyrir því að fljúga hér. Ég get verið bjartsýnn á framtíð lands og þjóðar ef ég dæmi út frá samnemendum mínum sem flestir eru u.þ.b. 20 árum yngri en ég og að mínu viti afskaplega efnilegt fólk.“

Spennandi upplifun

Hvernig er Circle Air öðruvísi en önnur flugfélög á landinu?

„Við erum fyrst og fremst að fljúga með farþega, aðallega ferðamenn, í skipulögðu útsýnisflugi frá Reykjavík og Akureyri en svo erum við með samstarfsfyrirtækjum okkar jafnframt að bjóða upp á ýmiss konar leiguflug á stærri vélum. Við erum þannig ekki í áætlunarflugi heldur förum með ferðamenn upp á hálendið og um landið þvert og endilangt. Vélarnar okkar eru nýjar flugvélar sem eru með sérstaklega stórum gluggum og þægilegum sætum, og hægt er að lenda þeim á óhefðbundnum stöðum, s.s á Skógasandi, í Herðubreiðarlindum og Kerlingarfjöllum. Þá eru þessar vélar mikið notaðar í kvikmyndatökur og ljósmyndun úti í heimi þar sem þær eru sérstaklega stöðugar. Þær geta flogið hægt og möguleiki er á að opna þær upp á gátt á flugi. Við vitum að það er spennandi upplifun fyrir ferðamenn að sjá Ísland á þennan hátt. Við höfum blessunarlega séð töluverðan uppgang í þyrlu-útsýnisflugi, en þetta er töluvert hagstæðara og ætti því að höfða til stærri markhóps, kannski meira fyrir hinn almenna ferðamenn heldur en bara fyrir þá efnameiri.“

Hvar eruð þið með aðstöðu?

„Við erum bæði með afgreiðslu og flugskýli á Akureyrarflugvelli, en auk þess erum við með frábæra aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli fyrir aftan Icelandair Natura hótel hjá Flugþjónustunni. Við erum sjálf með tvær nýjar flugvélar hjá okkur, en samstarfsfyrirtæki okkar eiga síðan fjölda annarra flugvéla, þannig að við getum í raun útvegað hagstæðasta flutningsmöguleikann fyrir flest verkefni. Það er spennandi að reyna a.m.k. að vera með fjölda möguleika „uppi í hillu“ þannig að hægt sé að þjónusta bæði stærri markað og uppfylla ólíkar þarfir.“

Nánar er rætt við Þorvald í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .