„Starfið felst í að aðstoða Viðskiptaráð í að halda áfram að koma sínum málefnum á framfæri en ráðið hefur staðið vörð um þá sem stunda rekstur á Íslandi í yfir 100 ár ,“ segir Steinar Þór Ólafsson, nýráðinn sérfræðingur í samskiptum og miðlun hjá Viðskiptaráði Íslands.

Hann starfaði fyrir sem markaðsstjóri Skeljungs frá árinu 2017 en fyrirtækið fékk flestar tilnefningar og verðlaun á Lúðrinum, íslensku auglýsingaverðlaununum, fyrir árið 2019.

„Við vorum til að mynda með viðburð í Kringlunni um jólin þar sem við settum upp búð sem seldi ekki neitt. Þar gat fólk komið og jafnað sig á jólaösinni.“

Leið Steinars inn í viðskiptalífið er óhefðbundnari en hjá flestum. Hann útskrifaðist frá HR með gráðu í íþróttafræðum árið 2012 og starfaði síðan sem leikfimikennari í Lúxemborg í þrjú ár. Steinar skráði sig svo í MBA nám árið 2015 og útskrifaðist úr því tveimur árum síðar.

„Ég held að það sé alls staðar þörf á að vera með breidd í því hvernig fólk hugsar og hvaða reynslu fólk hefur. Það er ekki gott að það séu allir viðskiptafræðingar eða lögfræðingar.“

Steinar, sem var í MORFÍS liði Verzlunarskóla Íslands á sínum tíma, var einn yngsti nemandinn í MBA-náminu en einn samnemenda hans var Þorkell H. Diego, yfirkennari Versló.

„Allt í einu vorum við orðnir skólabræður í MBA-námi. Ég held að það hafi verið meira sjokk fyrir hann en mig. Ég var svolítið kjöldreginn í gegnum Versló út af félagslífinu. Þorkell þurfti aðeins að hafa afskipti af mér á þeim tíma svo að ég myndi útskrifast.“

Samhliða vinnu hefur Steinar verið með pistla og þáttagerð undir nafninu Kóntóristinn (vísun í lag eftir Mannakorn) í þættinum Mannlegi þátturinn á Rás 1. Þar fjallar hann um vinnumenningu en í sumar hefur hann verið með seríu um atvinnuleit.

„Það hafa aldrei verið fleiri atvinnulausir á Íslandi. Það að vera í atvinnuleit er í rauninni bara eitt stórt höfnunarferli þar sem einungis einn umsækjandi fær starfið þó að það séu fimm frábærir einstaklingar að sækja um. Ég hef fjallað um hvaða áhrif þetta hafi á sjálfsmyndina og aðeins reynt að pumpa loft í dekkið hjá fólki í atvinnuleit.“

„Þetta hefur verið vinsælt og í kjölfarið hef ég haldið fyrirlestra í fyrirtækjum. Ég kalla þetta hugvekjur af því að þetta fær fólk til þess að hugsa frekar en að þetta sé fyrirlestur.“

Eiginkona hans er lögreglukonan Fanney Sigurgeirsdóttir en saman eiga þau þriggja ára son. Steinar segist vera nýbúinn að kaupa fjölskylduhjól að dönskum stíl með kassa að framan þar sem sonur hans og hundur komast fyrir.

Steinar ætlar svo að taka þátt í Laugavegshlaupinu, sem er 55 km. utanvegahlaup, í lok sumars. „Ég hljóp árið 2010 og ætla að hlaupa aftur núna á 10 ára afmælinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .