Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði á ný eftir sveiflur síðustu vikna í dag, eða um 1,11%, og endaði hún á því að ná rétt yfir 1.600 stiga mörkin, eða í 1.600,66 stigum eftir 1,5 milljarða króna heildarviðskipti í kauphöllinni.

Icelandair hækkaði um 5,52%, og fór í 3,25 krónur, í þó ekki nema 24 milljóna króna viðskiptum. Í gær lækkaði gengi félagsins hins vegar um nærri fimmtung í nærri 140 milljóna króna viðskiptum. Hækkun á gengi bréfa VÍS var jafnvel hærri, eða 6,74%, í þó mun minni viðskiptum eða fyrir 160 þúsund krónur, en gengi bréfa vátryggingafélagsins endaði í 8,55 krónum.

Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Festi, eða fyrir 5,09%, up í 113,50 krónur, einnig þó í litlum viðskiptum eða fyrir 2 milljónir króna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær kallaði góður rekstur ársins 2018 á það hjá félaginu að bæði forstjórinn og framkvæmdastjórar fengu veglega kaupauka á síðasta ári.

Verðið stóð í stað í mestu viðskiptunum

Mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 812,9 krónur, en þau stóðu samt sem áður í stað í 51 krónu. Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 238,6 milljónir króna, og hækkuðu þau um 1,43%, upp í 498 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var lækkun gengis bréfa félagsins sú næst mesta eftir hækkun daginn áður.

Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Regins, en gengi þeirra lækkaði um 0,83%, niður í 18,0 krónur, í 227 milljóna króna viðskiptum. Eins og sagt var frá fyrr í dag keypti stjórnarformaður félagsins bréf í félaginu fyrir um 90 milljónir króna.

Mest lækkun var hins vegar á fasteignafélaginu Eik, eða fyrir 1,56%, í 93 milljóna króna viðskiptum, og fór gengi bréfa félagsins niður í 6,30 krónur. Næst mest lækkun var svo á gengi bréfa Sjóvá, eða um 1,37%, niður í 14,35 krónur, í 17 milljóna króna viðskiptum.

Evran í 151 krónu, dalurinn í 140 krónum og pundið í 164 krónur

Íslenska krónan veiktist í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í Evrópu, nema Svissneska frankanum, en styrktist gagnvart bæði Bandaríkjadal og japanska jensins. Bandaríkjadalur veiktist um 0,21%, niður í 140,45 krónur, japanska jenið um 0,09%, niður í 1,2611 krónur og svissneski frankinn um 0,22%, niður í 142,87 krónur.

Hins vegar styrktist evran um 0,26%, upp í 151,40 krónur og danska krónan um 0,31%, upp í 20,275 krónur. Norska krónan styrktist um 1,45%, upp í 12,674 og sú sænska um 0,98%, upp í 13,792 krónur. Breska sterlingspundið styrktist hins vegar um 2,19% gagnvart íslensku krónunni og kostar það nú 164,83 krónur.