Gengi bréfa fasteignafélagsins Reita hækkaði mest á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag, eða um 4,09%, upp í 45,85 krónur, í þriðju mestu viðskiptum dagsins með eitt félag, eða fyrir 237,8 milljónir króna. Öll félög utan fjögurra hækkuðu í viðskiptum dagsins.

Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag námu 2,5 milljörðum og hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,04%, upp í 2.212,68 stig og hefur hún aldrei verið hærri við lok viðskipta. Síðasta hámark var 9. september síðastliðinn þegar vísitalan fór í 2.204,91 stig í lok dags, en þar áður náði hún hápunkti við lok viðskipta 17. janúar síðastliðinn í 2.199,79 stigum.

Mest velta var með bréf Festi, eða fyrir 373,2 milljónir króna, og hækkaði gengi bréfa félagsins um 0,33% í þeim, upp í 150,50 krónur. Næst mesta veltan var með bréf tryggingafélagsins VÍS, eða fyrir um 286,4 milljónir króna, og hækkaði gengi bréfa félagsins um 2,91%, upp í 11,32 krónur.

Eimskipafélag Íslands hækkaði næst mest, eða um 3,97%, upp í 144 krónur í mun minni viðskiptum eða fyrir 45 milljónir króna. Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Brim, eða um 3,53%, í 139 milljóna króna viðskiptum og endaði gengi bréfanna í 45,45 krónum.

Icelandair enn undir útboðsgenginu

Mesta lækkun var hins vegar á gengi bréfa Skeljungs, eða um 1,50%, í 53 milljóna króna viðskiptum, og nam lokagengið 7,88 krónum. Næst mest lækkun var á gengi Icelandair, eða um 1,04%, í litlum 19 milljóna króna viðskiptum og er verð bréfa félagsins nú enn 5% undir útboðsgenginu á dögunum eða í 0,95 krónum.

Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Arion banka, eða um 0,33%, í 172 milljóna króna viðskiptum og er lokagengi bréfa bankans því 75,50 krónur.

Krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, utan Bandaríkjadals. Hann veiktist gagnvart krónu um 0,02%, og fæst nú á 138,40 krónur. Evran styrktist um 0,25%, upp í 162,86 króna kaupgengi, og breska pundið styrktist um 0,57%, upp í 180,46 krónur.