Þrettán af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar lækkuðu í 4,1 milljarðs viðskiptum í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1% og stendur nú í 3.340 stigum. Vísitalan hefur nú fallið um 3,2% á einni viku, eða frá því að hún náði methæðum í 3.450 stigum á þriðjudaginn síðasta.

Smásölufyrirtækin Festi og Hagar leiddu lækkanir en þau lækkuðu bæði um 2,3% í dag. Gengi beggja félaga hafa nú fallið um 5% frá byrjun síðustu viku.

Hlutabréfaverð Símans lækkaði einnig 1,8% og stendur nú í 11,2 krónum á hlut. Gengi fjarskiptafélagsins hefur lækkað um 4,4% undanfarinn mánuð en er þó 40% hærra en í upphafi árs.

Kvika lækkaði um 1,7% en gengi bankans hefur nú fallið um 6,3% frá því á fimmtudaginn síðasta. Hlutabréfaverð Marels hefur á sama tíma lækkað um 3,1% en félagið lækkaði um 1,3% í nærri 500 milljóna viðskiptum í dag.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka, eða um 1,2 milljarðar, en bankinn hækkaði um 0,3% í dag. Icalandair og Iceland Seafood hækkuðu einnig í viðskiptum dagsins en velta með hlutabréf félaganna tveggja var þó takmörkuð.