Hlutafjárútboð íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Solid Clouds mun hefjast klukkan 10:00 mánudaginn 28. júní og standa yfir til klukkan 16:00 miðvikudaginn 30. júní. Félagið verður í kjölfarið skráð á First North markaðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka sem er umsjónar- og söluaðili útboðsins.

Útboðsgengi bréfanna verður 12,5 krónur og verða tvær tilboðsbækur í boði fyrir fjárfesta. Í tilboðsbók A verður tekið við áskriftum að fjárhæð 100 þúsund til 15 milljón króna. Í tilboðsbók B verður tekið við tilboðum yfir 15 milljón krónum. Horft verður til þess að skerða ekki tilboð undir 300 þúsund krónum.

Áætlað er að selja 40 milljónir hluta í útboðinu að nafnvirði í formi nýs hlutafjár en félagið hefur heimild til að stækka útboðið upp í allt að 58 milljón hluti. Nýja hlutaféð mun samsvara um 22%-32% af heildarhlutafé fyrirtækisins. Verði útboðið stækkað upp í 58 milljón hluti gefur útboðsgengið félaginu markaðsvirði upp á 2,3 milljarða króna.

Félagið stefnir að því að sækja á bilinu 498 milljónir króna til 722 milljónir króna en það fer eftir því hversu margir hlutir verða seldir í útboðinu.

Fyrirtækið þróar tæknigrunn sem hægt er að nota til framleiðslu fjölspilunartölvuleikja og framleiðir einnig leikinn Starborne: Sovereign Space en um 400 þúsund manns frá 150 löndum hafa hlaðið niður leiknum.

Þetta er fjórða útboðið á tveimur mánuðum og þar af annað félagið sem fer á First North markaðinn. Play verður tekið á First North markaðinn 9. júli en Síldarvinnslan og Íslandsbanki hafa nú þegar verið skráð á aðalmarkað kauphallarinnar.