Krónan styrktist um 5% á síðustu tveimur vikum ársins gagnvart evru og 6% gagnvart Bandaríkjadal. Markaðsaðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja skýringa megi leita í því að útflytjendur hafi þurft að skipta gjaldeyri í krónur til að greiða laun og annan kostnað og hafi auk þess viljað innleysa gengishagnað fyrir áramót. Þá hafi gengi krónunnar fallið meira en undirliggjandi hagstærðir gefi tilefni til.

Seðlabankinn lagðist gegn styrkingu krónunnar með kaupum á erlendum gjaldeyri fyrir 401 milljón króna 21. desember. Það er í fyrsta sinn sem bankinn grípur inn í með kaupum á erlendum gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði í meira en ár. Seðlabankinn keypti aftur á móti þrívegis krónur frá september og fram í nóvember til að vinna gegn veikingu krónunnar.

Gengið hafi sigið of mikið

„Það sló á svartsýnina þegar seðlabankastjóri ákvað að segja markaðnum til í desember,“ segir Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka. Már Guðmundsson seðlabankastjóri gaf út við vaxtaákvörðun þann 12. desember að líklega hefði gengi krónunnar lækkað niður fyrir jafnvægisgildi sitt. „Ég held að það hafi ekki verið innistæða fyrir svona veikri krónu í byrjun desember. Ég er sammála Seðlabankanum að því leyti að þetta er miklu eðlilegra gengi fyrir krónuna að vera í ef við hugsum um undirliggjandi flæði gjaldeyris til landsins,“ segir Kristrún. Hún bendir á að útlit sé fyrir að viðskiptaafgangur ársins 2018 hafi verið nálægt 80 milljörðum króna. Í upphafi ársins hafi því aftur á móti verið spáð að viðskiptaafgangurinn yrði nær 35 milljörðum króna. „Því er ekkert skrítið að veikingin hafi að hluta gengið til baka. Einhver útflutningsfyrirtæki sátu kannski á sér og biðu með að skipta evrum í krónur á þessum tíma. Svo þarftu á einhverjum tímapunkti að greiða reikninga og borga laun.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .