„Við hagfræðingar hefðum alltaf viljað sjá meira aðhald,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, um fjárlög nýrrar ríkisstjórnar. Ásgeir var gestur á Sprengisandi fyrir hádegi. Þar voru einnig rædd heilbrigðismál, innviðir og bankakerfið.

Ásgeir segir fjárlögin svipuð og fjárlög síðustu ríkisstjórnar. Það sem veldur honum aðallega áhyggjum er það hvernig stjórnarandstaðan talar á Alþingi.

„Það sem maður hefur aðallega áhyggjur af í umræðunni er að það virðist – eins og stjórnarandstaðan talar á þinginu – að hún átti sig ekki á hvernig ríkisfjármál virka. Að það þurfi að eyða meiri peningum. Ef við förum að þenja út ríkissjóð á þessum tímapunkti í hagsveiflunni, þá erum við að fá þenslu, vaxtahækkanir frá Seðlabankanum og verðbólgu. Það skiptir mjög miklu máli að ríkið vinni á móti hagsveiflunni,“ sagði Ásgeir.

Verkalýðsfélög einoka umræðuna

Ásgeir gagnrýndi einnig skort á forgangsröðun og árangursmælikvörðum í rekstri hins opinbera.

„Einn aðal vandinn hjá okkur er að það eru ekki til neinir mælikvarðar [á árangur eða gæði]. Eins og heilbrigðiskerfið. Hvernig skilgreinum við gott heilbrigðiskerfi? Það eru engir mælikvarðar til. Það sem er alltaf talað um er hvað við eyðum miklum peningum í heilbrigðismál. Það er ömurlegur mælikvarði, vegna þess að það eru til lönd sem eyða miklum peningum í sín heilbrigðiskerfi, eins og Bandaríkin, en eru samt með ömurlegt kerfi.

Forgangsröðun skiptir máli. Hvaða mál eru það sem skipta mestu? Þessi umræða er bara ekki enn til staðar á Íslandi.“

Ásgeir segir að útgjöld til ákveðinna málaflokka á borð við heilbrigðismál og menntamál sé ekki góður mælikvarði á árangur.

„Það virðist vera að eini mælikvarðinn á opinbera þjónustu er hversu miklum peningum er varið í hana. Og það er ekki góður mælikvarði. Að sama skapi virðast verkalýðsfélög þess fólks sem vinnur í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu nokkurn veginn einoka þessa umræðu um hvernig þessi kerfi eiga að vera rekin. Það gengur náttúrulega ekki að láta verkalýðsfélög lækna stjórna heilbrigðiskerfinu eða láta verkalýðsfélög kennara stjórna menntakerfinu í gegnum kjarasamninga.

Það verður að móta opinbera stefnu. Ríkið þarf að setja miklu meiri kröfur um skýra árangusmælikvarða í þeim peningum sem varið er í hluti eins og menntun, heilbrigðismál og annað og að við séum að fá eitthvað fyrir peninginn.“