Fylkisttjóri New York-fylkis, Andrew Cuomo, hefur sett á útgöngubann og skipað öllum fyrirtækjum sem ekki gegni lykilhlutverki að loka frá og með sunnudagskvöldi. Wall Street Journal greinir frá .

Fyrirskipanirnar gætu verið í gildi svo mánuðum skipti. Yfir 7.000 manns hafa nú greinst með Covid-19 í heimsveldisfylkinu, þar af rúm 4.400 í New York-borg, og 35 hafa látið lífið.

Fylkisstjórinn greindi frá þessu á blaðamannafundi fyrr í dag, hvar hann sagði aðgerðirnar þær stórvægustu sem yfirvöld gætu ráðist í. „Lífið gengur ekki sinn vanagang. Horfumst í augu við það, gerum okkur grein fyrir því og tökumst á við það.“

Meðal fyrirtækja sem skilgreind verða sem svo að þau gegni lykilhlutverki eru spítalar, matvöruverslanir og apótek, auk almenningssamgangna. Brjóti önnur fyrirtæki lokunarbannið mega þau eiga von á sektum.

Íbúar hafa áfram leyfi til að fara út til að fá nauðsynlega hreyfingu og til að versla inn, en að öðru leyti er mælst til þess að fólk haldi sig heima fyrir.