Rannís hefur úthlutað um 500 milljónum íslenskra króna í náms- og þjálfunarstyrki úr Erasmus+. Erasmus+ er menntahluti mennta- og æskulýðsáætlunar ESB. Aldrei hefur verið úthlutað eins miklu fjármagni og í ár. Úthlutunin náði til 43 verkefna og nutu rúmlega eitt þúsund einstaklingar frá skólastofnunum, fræðsluaðilum og fyrirtækjum góðs af styrkjunum að þessu sinni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rannís.

Þessir styrkir hafa farið stighækkandi og nutu leik-, grunn- og framhaldsskólar góðs af því. Háskólastigið fær þó hæstu styrkina.

Erasmus+ mennta- og æskulýðsáætlun Evrópusambandsins, er stærsta áætlun í heimi á þessu sviði. Áætlað er að Ísland muni fá 870 milljónir króna úthlutaðar til menntahlutans árið 2018.