Útlán lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaga sinna námu rétt ríflega 9 milljörðum í júní á þessu ári. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Útlánin voru rétt rúmum milljarð lægri en í maí síðast liðnum en þá námu þau um 10,1 milljarði króna. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs lánuðu sjóðirnir í formi nýrra sjóðsfélagalána 47,5 milljarða króna. Til samanburðar lánuðu sjóðirnir um 48,8 millljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 en það er langhæsta fjárhæð sem þeir hafa lánað á fyrri árshelming.

Þessar tölur benda til að útlánaaukning sjóðanna sé að ná jafnvægi en þau jukust um 72% milli áranna 2016 og 2017.

Einnig kemur fram að á fyrstu sex mánuðum þessa árs nam hlutdeild óverðtryggðra sjóðsfélagalána 24% af heildarútlánum sjóðanna en hlutdeild verðtryggðra lána var 76% af þeim.

Hlutdeild lánaflokkanna tveggja hjá viðskiptabönkunum er þó hnífjöfn eða um 50% en mun fleiri kjósa nú að taka óverðtryggð lán en áður.