Erlendir aðilar áttu ríkisskuldabréf fyrir 193,8 milljarða króna í lok september. Eign erlendra aðila í ríkisskuldabréfum jókst um 8 milljarða í september. Aukningin í mánuðinum nam 4,3%, sem er öllu minni hlutfallsleg aukning en í ágúst, þegar skuldabréfaeign erlendra aðila jókst um 18 milljarða, eða 11%. Þetta má lesa úr Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins sem birtar voru í dag.

Sem fyrr eru erlendir aðilar að bæta við eign sína í lengri óverðtryggðum bréfum ríkissjóðs. Hlutfallslega var aukningin mest í skuldabréfaflokknum RIKB 31, eða 23,9%. Nemur eign erlendra aðila í skuldabréfaflokknum nú rétt rúmum fjórtán milljörðum króna, en var mánuði fyrr 11,3 milljarðar.

Heildareign erlendra aðila í íslenskum skuldabréfum jókst úr 185,8 milljörðum króna í 193,8 milljarða í september.