SaltPay, sem keypti Borgun á síðasta ári, hefur fest kaup á tveimur erlendum fjártæknifyrirtækjum til viðbótar, Tutuka og Paymentology samkvæmt tilkynningu á vef félaganna.

Kaupin eru sögð hjálpa til við að styðja við vaxtaráform SaltPay en félagið er í miklum sóknarhug. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá því í febrúar lauk SaltPay nýlega 150 milljóna dollara fjármögnun, sem samsvarar um 19 milljörðum króna.

Þá festi félagið nýlega kaup á portúgalska fjártæknifyrirtækinu Pagaqui, hinu tékkneska Storyous og stofnaði dótturfélag á Bretlandi. Auk þess leiddi félagið 190 milljóna króna fjármögnun íslenska sprotafyrirtækisins Noona. Starfsmenn samstæðunnar er um 600 og hugðist félagið bæta við sig um 60 starfsmönnum á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs.

Tutuka og Paymentology verða áfram rekin sem sjálfstæðar einingar og munu samanlagt sinna viðskiptavinum í meira en 50 löndum.

Tutuka, var stofnað í Jóhannesarborg í Suður-Afríku árið 1998 en er í dag með starfsemi í 33 löndum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Félagið var fyrir með tengsl við eigendur SaltPay en Eduardo Pontes, annar tveggja forstjóra SaltPay fjárfesti í félaginu árið 2019 . Paymentology var stofnað árið 2015 og hefur unnið að fjártæknilausnum með félögum á borð við Revolut og breska bankanum Standard Chartered.

Tutuka var að meirihluta í eigu framtakssjóðs sem stýrt var af félaginu Apis Partners LLP, en sjóðurinn mun eignast hlut í SaltPay við söluna. SaltPay var fyrir með starfsemi í tíu löndum í Evrópu og Suður-Afríku.