Wow air auglýsir í dag 40% afslátt af flugfargjöldum til allra áfangastaða ef keypt er fyrir miðnætti á mánudag.

Flugfélagið var með sama afslátt undir lok síðasta mánaðar , þá í heila viku, en um þær mundir var fjárhagsstaða félagsins erfið .

Þann 18. september síðastliðinn lauk svo loks skuldabréfaútboði félagsins upp á 7,7 milljarða króna eftir töluverðar tafir, en bréfin greiða hæstu vexti meðal evrópskra flugfélaga.

Þá var sagt frá því að Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri félagsins, hygðist skrá félagið á markað innan 18 mánaða og selja undir helmingshlut í því fyrir allt að 300 milljónir dollara, um 33 milljarða króna.

„Við erum mjög reglulega með útsölur, við vorum líka með þær í ágúst, við erum náttúrulega lággjaldaflugfélag, og það er það sem það gengur útá, að bjóða uppá lág verð.“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Wow.

Aðspurð hvort félagið sé að leita sér að frekara fjármagni eftir lok skuldabréfaútboðsins um daginn segir Svanhvít: „Nei, núna er þetta ferli búið.“