Tímaritið Fortune hefur birt lista yfir 50 valdamestu konurnar í bandarísku viðskiptalífi á árinu 2021. Á listanum má finna margar heimsþekktar konur á borð við Mary Barra, forstjóra General Motors, og Sheryl Sandberg, rekstrarstjóra Meta (áður Facebook). Þar er einnig að finna konur sem hafa verið að ryðja sér til rúms innan fjármálageirans og nokkur ný, minna þekkt andlit sem hafa látið til sín taka.

Risu til áhrifa í fjármálaheiminum

Jane Fraser var í mars á síðasta ári ráðin forstjóri Citi, fyrst kvenna meðal stóru Wall Street bankanna. Jane er nú önnur á lista Fortune en var áður í 6. sæti listans. Sem forstjóri Citi reið hún á vaðið með umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir þar sem hún meðal annars sameinaði eignastýringarstarfsemi bankans á eitt svið. Jane hyggst enn fremur selja frammistöðulitlar einingar innan viðskiptabanka úr bankanum.

Thasunda Brown Duckett vakti athygli á Wall Street þegar hún var ráðin forstjóri fjármálarisans TIAA en hún tók við starfinu í maí á síðasta ári. Áður leiddi hún viðskipta-bankasvið JP Morgan Chase og þótti hún þar rísandi stjarna. Hún er nú önnur tveggja hörundsdökkra kvenforstjóra á lista Fortune og aðeins sú fjórða frá upphafi. TIAA er með eignir sem nema 1,3 billjónum dala í stýringu, eða sem samsvarar um 162 billjónum íslenskra króna,  og hafa vistaskiptin hjálpað Thasunda að klífa upp úr 30. sæti lista Fortune í það 10.

Eldflaug á uppleið

Gwynne Shotwell, forseti og rekstrarstjóri SpaceX, er á meðal athyglisverðra kvenna á lista Fortune, en hún færist upp í 41. sæti listans úr því 48. Elon Musk hefur verið andlit SpaceX út á við og því hefur minna farið fyrir Gwynne sem mun vera allt í öllu í daglegum rekstri félagsins. Hún var ráðin til SpaceX árið 2002, í kjölfar heimsóknar sinnar til SpaceX þar sem hún sannfærði Elon um að hann þyrfti að ráða starfsmann til að sinna viðskiptaþróun félagsins í fullu starfi. Gwynne starfaði þá hjá Microcosm og hugðist ekki sjálf taka slíkt starf að sér en í kjölfar samtalsins sannfærði Elon hana um að taka við starfinu. Hún var ráðin forseti SpaceX árið 2008 en félagið hefur skipað sér í fremstu röð meðal vaxandi fjölda geimferðafyrirtækja og hefur meðal annars verið í samstarfi við Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA.

Nýjar áhrifakonur á lista

Adena Friedman, sem hefur verið forstjóri Nasdaq frá árinu 2017, kom ný inn á listann í 43. sæti. Áhrif Nasdaq hafa verið langt umfram stærð kauphallarinnar, enda knýja lausnir fyrirtækisins 130 markaði víða um heim. Árið 2021 gerði Nasdaq sig gildandi í jafnréttismálum þegar bandaríska verðbréfaeftirlitið samþykkti tillögu kauphallarinnar um að innleiða reglur sem skilyrða fjölbreytileika í stjórnum skráðra félaga. Adena fór fyrir tillögunni en hinar nýju reglur skylda skráð fyrirtæki til að veita upplýsingar um fjölbreytileika í stjórnum og þar þurfa að minnsta kosti tveir stjórnarmeðlimir að tilheyra minnihlutahópum eða veita skýringar á því hvers vegna svo sé ekki. Reglubreytingin þykir til þess fallin að hafa áhrif til aukins fjölbreytileika meðal stjórna stórfyrirtækja í Bandaríkjunum og víðar, sem enn eru eingöngu skipaðar hvítum karlmönnum.

Shar Dubey, forstjóri Match Group, móðurfélags stefnumótaappsins Tinder, er sömuleiðis ný á lista en hún situr í 50. sæti. Hlutabréfaverð Match hefur hækkað um helming frá því að félagið var selt út úr eignarhaldsfélaginu IAC í júlí á síðasta ári. Nýverið var tilkynnt um að Match yrði tekið inn í S&P 500 vísitöluna og hefur sú tilkynning veitt félaginu byr undir báða vængi. Í gegnum faraldurinn hefur fyrirtækið haldið áfram að vaxa og á fyrri helmingi ársins 2021 jókst veltaN um 25% frá sama tímabili ársins á undan. Shar vakti mikla athygli þegar hún, ein forstjóra skráðra félaga, tók afstöðu gegn ströngum lögum um þungunarrof sem samþykkt voru í heimaríki félagsins, Texas. Hún hefur átt frumkvæði að því að setja á laggirnar sjóð til að styrkja starfsfólk Match sem þarf að sækja þjónustu vegna þungunarrofs utan Texas. Kynjahlutföll stjórnar Match þykja jafnframt til fyrirmyndar, verandi nærri því jöfn þar sem konur eru 45% stjórnarmeðlima

Yngst á lista er hin 44 ára gamla Stephanie Cohen, meðstjórnandi viðskiptabanka- og eignastýringar Goldman Sachs á alþjóðavísu. Stephanie, sem kom ný inn á lista í 44. sæti hans, tók við starfi sínu í janúar á síðasta ári og varð með því eina konan sem leiðir stærri viðskiptaeiningu innan Goldman Sachs, auk þess að vera yngst meðal æðstu stjórnenda bankans. Hún fer þannig með stjórn eigna viðskiptavina sem nema um einni billjón Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 124 billjónum íslenskra króna. Á meðal eininga sem undir hana heyra er viðskiptabankinn Marcus, sem hefur yfir 8 milljónir viðskiptavina.