Furstadæmið Mónakó, sem einungis nær yfir um 2 ferkílómetra eða svo, hefur ákveðið að færa út kvíarnar til að koma fyrir öllum milljónamæringum sem vilja koma sér þar fyrir.

Í landinu býr nú þegar hæsta hlutfall milljónamæringa í heimi, en einn af hverjum þremur af um 38 þúsund manna íbúum, teljast milljónamæringar að því er BBC greinir frá upp úr rannsókn Oliver Williams, sem stýrir ráðgjafafyrirtækinu WealthInsights.

Til þess að koma fyrir þeim aukna fjölda milljónamæringa sem vilja koma sér fyrir í landinu, sem er á suðurströnd Frakklands, hafa stjórnvöld ákveðið að byggja eyjar á landfyllingum út fyrir ströndinni. Eitt af fjölmörgum skilyrðum til að geta flutt til landsins er að viðkomandi setji um 500 þúsund evrur, andvirði 63 milljóna íslenskra króna í bankareikning í landinu.

Mesti íbúaþéttleiki heims

Nú þegar telst þetta næstminnsta land í heimi vera með mesta íbúaþéttleika í heimi, en aukin eftirspurn hefur verið í að flytja til landsins, enda enginn tekjuskattur fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem starfa í landinu.

Er búist við að allt að 16.100 milljónamæringar muni vilja setjast að í landinu á næstu 10 árum en nú þegar er húsnæðisverðið mjög hátt með fermetraverð á bilinu 67 þúsund upp í 142 þúsund dali. Það jafngildir allt að 14,5 milljónum íslenskra króna á hvern fermetra.

Af þessum ástæðum hefur Albert prins í Mónakó ákveðið að byggja upp um 15 ekrur á landfyllingum úti fyrir ströndinni, sem mun jafnframt innihalda höfn þar sem 30 skip geta lagst að bryggju, garð og 120 lúxusíbúðir. Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 2,1 milljarður Bandaríkjadala, eða sem nemur 215 milljörðum íslenskra króna, en það á að verða tilbúið árið 2026.

Uppbyggingin byggir þó á langri hefð, en furstadæmið hefur stækkað um fimmtung með landfyllingum síðan árið 1861, þó sumir hafi áhyggjur af áhrifum landfyllinganna á lífríki sjávarins.